139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Herra forseti. Í gær birtust tillögur nefndar á vegum bresku ríkisstjórnarinnar um löggjöf til breytinga á löggjöf um bankastarfsemi í kjölfar bankakreppunnar 2008. Helstu tíðindin eru tillaga um aðskilnað fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi með stofnun dótturfélaga fyrir ólíka starfsemi. Markmiðið er að slá skjaldborg um viðskiptabankastarfsemi til að vernda innstæðueigendur. Þannig verði dregið úr áhættu í starfsemi viðskiptabanka og lagt til að krafan um eiginfjárhlutfall þeirra verði hækkuð úr 7% í 10%. Auk þess á að gera tryggðar innstæður að forgangskröfum.

Herra forseti. Við endurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki á síðasta ári komst meiri hluti viðskiptanefndar að þeirri niðurstöðu að ekki væri tímabært að leggja til aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi. Ástæðan var einkum sú að taka átti á mörgum þeim ágöllum sem slíkur aðskilnaður tryggir, t.d. með banni við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum og strangari reglum um lánveitingar og viðskipti við hvers konar tengda aðila. Auk þess hafði ekkert EES-land á þeim tíma með sambærilegt regluverk lagt fram tillögur í þá átt. Nefndin áréttaði nauðsyn þess að fylgjast náið og vel með þróun lagasetningar erlendis á þessu sviði.

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. formann viðskiptanefndar hvenær viðskiptanefnd hyggst taka aftur upp umræðu um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi hér á landi.