139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þessa ádrepu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Hann er væntanlega að vísa til svokallaðs Ýdalasamkomulags milli stjórnvalda og heimamanna í Norðurþingi og öðrum sveitarfélögum á svæðinu. Ég tel mjög brýnt að staðinn sé vörður um opinbera þjónustu á þessu svæði sem er að fara í mikið uppbyggingarferli. Ég er talsmaður þess að uppbyggingarferlið vari lengi svo ruðningsáhrifin verði minni. Þarna er að hafa á milli 400 og 600 megavött af orku (Gripið fram í.) og hugsanlega má nota þá orku til að koma á fót margvíslegum iðngörðum og auka með því fjölbreytni starfa til mikilla muna á þessu svæði. En við verðum að horfa til þess hvað gerðist fyrir austan, við fórum e.t.v. of hratt af stað með framkvæmdir þar. Þar þurfti að auka mjög opinbera þjónustu á meðan uppbyggingin stóð sem hæst, ekki síst á sviði heilbrigðismála. Þess vegna finnst mér skjóta skökku við ef menn ætla að skera niður opinbera þjónustu á sviði heilbrigðismála á sama tíma og farið verður í tugmilljarða uppbyggingu á þessu svæði sem kallar einmitt á slíka þjónustu í auknum mæli.

Ég mun því vísa til þess samkomulags sem gert var í Ýdölum nýverið milli stjórnvalda og sveitarstjórnarmanna á svæðinu og aukinheldur vísa ég til bókunar sem ég lét gera á síðasta ári í hv. fjárlaganefnd þess efnis að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu hringinn í kringum landið fari ekki fram úr meðaltali á landinu eða sem nemur 1,5% eins og boðað er. Þar af leiðandi finnst mér það engan veginn koma til greina að farið verði í 8% niðurskurð á þessu svæði, ekki síst að teknu tilliti til samgangna. Þarna er um að ræða þjónustusvæði sem spannar 240 kílómetra og það er sjálfsögð krafa fólks (Forseti hringir.) að eiga greiðan aðgang að grunnþjónustu í þessu efni. Við skerum ekki niður á sama tíma og við bætum í framkvæmdir á þessu svæði.