139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þegar rætt er um gjaldmiðla verða menn að horfa yfir lengri tíma en ekki á dagsveifluna og þegar evran var skráð í fyrsta sinni fyrir liðlega tíu árum mátti kaupa fyrir 1 evru 1 bandaríkjadal og 18 sent. Nú eftir mikla erfiðleika á evrusvæðinu var í gærkvöldi hægt að kaupa 1 bandaríkjadal og 37 sent fyrir 1 evru, þ.e. 15% meira en í upphafi, og evran hefur þannig styrkst gagnvart dollar á þessu tímabili. Ég dreg þetta fram til að undirstrika að þótt viðsjár séu á evrusvæðinu og viðfangsefnin erfið eru fréttir af andláti og útför evrunnar fjarri öllu lagi. Hún hefur sveiflast eins og aðrir gjaldmiðlar á þessum liðlega áratug, fór lægst í 82 sent fyrir hverja evru en er núna í sterkara lagi. Þrátt fyrir þær sveiflur hefur hún sveiflast miklum mun minna en íslenska krónan á sama tíma sem minnir okkur á að evra í kreppu er stöðugri og hagkvæmari gjaldmiðill en íslenska krónan.

Hvaða áhrif hefur þetta á okkur? Það er auðvitað skemmst frá því að segja að um allan heim eru viðsjár á fjármálamörkuðum. Það er hrun í kauphöllum aftur og aftur, í Asíu, Ameríku og Evrópu. Grikkland er ekki eitt af okkar helstu viðskiptalöndum en evrulöndin eru það og við þurfum auðvitað að hafa áhyggjur af því ef verr gengur í efnahag heimsins vegna þess að við erum nokkuð háð útflutningi. Hvað gerum við til að verjast því? Við byggjum upp öfugan gjaldeyrisforða eins og við höfum gert, tryggjum það að við eigum fyrir erlendum afborgunum næstu árin eins og við höfum gert og lögfestum gjaldeyrishöft sem hér liggja (Forseti hringir.) fyrir þinginu og tryggjum þannig efnahagslegt öryggi Íslands á næstu missirum í stað þess að þvælast fyrir því með málþófi fram á nótt.