139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita liggur fyrir þessu þingi frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem mælir fyrir um að festa gjaldeyrishöft í sessi og lögfesta reglur Seðlabankans til ársins 2015.

Það eru einkum tvær ástæður fyrir því að þetta frumvarp er komið fram, í fyrsta lagi vegna þess að höftin eru að renna út og í öðru lagi þess að stjórnvöld telja nauðsynlegt að renna lagastoð undir gjaldeyrishaftareglur Seðlabankans. Raunar eru nú flestir orðnir sammála um að reglurnar um gjaldeyrishöft skortir nauðsynlega lagastoð, ekki síst refsiákvæði.

Á grundvelli þessara reglna hafa Seðlabankinn og önnur yfirvöld gripið til ýmissa aðgerða. Það hefur verið ráðist í sakamálarannsóknir gagnvart einstaklingum, eignir þeirra hafa verið kyrrsettar, viðskiptin með stórfyrirtæki stöðvuð og einstaklingum og fyrirtækjum hefur verið hamlað að ráðstafa eignum sínum. Sumir hafa reyndar fengið undanþágur frá reglum Seðlabankans en aðrir ekki. Ef í ljós kemur, sem mér virðist raunar blasa við, að reglur Seðlabankans um gjaldeyrishöft hafi fram til þessa skort lagastoð má efast um að gild gjaldeyrishöft hafi verið í landinu. Ef svo er er ljóst að afleiðingarnar verða þær að þær sakamálarannsóknir sem blásið hefur verið til eru runnar út í sandinn og skaðabótaréttur hefur stofnast á hendur ríkinu og Seðlabankanum. Það má búast við að skaðabótakröfur muni dynja á yfirvöldum vegna þessa.

Því spyr ég hv. þm. Helga Hjörvar hvort lagt hafi verið mat á það hversu háa skaðabótaskyldu ríkið hefur hugsanlega bakað sér með því að standa með þessum hætti að reglusetningunni og hvernig hv. þingmaður telji að ríkisstjórn (Forseti hringir.) og Seðlabankinn eigi að axla ábyrgð á því tjóni sem blasir við að ríkissjóður, ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafi bakað ríkinu (Forseti hringir.) með þeim hrikalegu mistökum sem virðast vera að koma í ljós.