139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þessar yfirlýsingar hv. þingmanns koma mér mjög á óvart. Fram að þessu hefur það verið bjargföst sannfæring Sjálfstæðisflokksins að lögin um gjaldeyrishöft stæðust, (Gripið fram í.) enda kannski kominn tími til að minna Sjálfstæðisflokkinn á að gjaldeyrishöft á Íslandi voru innleidd af ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde. Þau ákvæði sem hv. þingmaður vísar til voru sett af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég fór ekki yfir þau álitamál sem hv. þingmaður nefndi á sínum tíma því að ég átti ekki sæti í þeirri þingnefnd sem um málið fjallaði en ég treysti því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem lesið hefur lög geti leitað til nefndarmannanna Ólafar Nordal og Birgis Ármannssonar sem bæði eru vel að sér um lög og voru aðilar að nefndaráliti um frumvarpið sem innleiddi þessa löggjöf og yfirveguðu þessi álitaefni á sínum tíma.

Ef ég á að forsvara gerðir ríkisstjórnar Geirs Haarde og nefndarmanna Sjálfstæðisflokksins á sinni tíð hygg ég að þau sjónarmið sem þar hafi ráðið hafi verið þau að hér væri um tímabundna löggjöf að ræða og þess vegna væri réttlætanlegt að framselja Seðlabankanum ákveðið vald í ljósi þess neyðarástands sem hér ríkti, sérstaklega í ljósi þess að það væri tímabundin aðgerð og að viðbrögð við innleiðingu gengishaftanna væru mikilli óvissu háð. Seðlabankinn yrði vegna þjóðaröryggishagsmuna að hafa mjög mikið svigrúm til að bregðast við ef menn reyndu að svindla á reglunum hjá þjóð sem væri í þeim nauðum stödd sem við vorum þá.

Þessi sjónarmið eiga hins vegar ekki við lengur og þess vegna höfum við lagt fram í þinginu lagafrumvarp til að kveða skýrlega á um það hvað er heimilt og hvað ekki og takmarka reglusetningarvald Seðlabankans í þessu. (Forseti hringir.) En þá bregður svo við að Sjálfstæðisflokkurinn er að þvælast fyrir því máli í þinginu. Ef það er skoðun Sjálfstæðisflokksins að ástandið í dag sé ólögmætt stendur Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) með málþófi sínu í þinginu vörð um ólögmætt ástand að eigin mati. Það er (Forseti hringir.) umhugsunarefni á hvaða stig málþófið er komið (Forseti hringir.) ef menn leggjast svo lágt. [Kliður í þingsal.]