139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get á þessu stigi máls auðvitað ekki talað fyrir aðra en sjálfan mig en eins og fram kom í andsvari mínu við ræðu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur í gær, finnst mér sú leið sem hún nefndi í ræðu sinni á margan hátt ótvírætt miklu betri en sú leið sem kemur fram í frumvarpinu, hvað aðrar greinar varðar. Þessi hugmynd hefur þann kost að tryggð er ákveðin þingleg meðferð, tryggðar eru opnar umræður á vettvangi þingsins og þá liggur á hverjum tíma skýrt fyrir hvort meiri hluti á þingi er fyrir þeim breytingum sem hæstv. forsætisráðherra leggur til. Þannig að leiðin sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi og hv. þm. Róbert Marshall spyr mig um er ótvírætt betri.

Hins vegar vakti ég líka athygli á því í gær að þarna er um að ræða einhvers konar léttútgáfu af núgildandi fyrirkomulagi. Ákvörðunarvaldinu er í raun haldið hjá þinginu en málsmeðferðin, miðað við það sem ég heyrði á hv. þm. Eygló Harðardóttur, er einfaldari og styttri heldur en nú er — og ég er ekkert viss um að það sé til bóta. Ég minni á það, sem hefur raunar líka komið fram í umræðunni, að almennt talað gerum við þá kröfu að ekki séu stofnuð ný embætti í landinu eða stofnaðar nýjar opinberar stofnanir í landinu eða þær lagðar niður, nema með lagasetningu. (Forseti hringir.) Og ég velti auðvitað fyrir mér: Af hverju ætti það að vera öðruvísi með ráðuneytin?