139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vísaði í ræðu minni til ítarlegrar framsöguræðu sem ég flutti á fimmtudagskvöldið og nefndarálits okkar sjálfstæðismanna úr allsherjarnefnd þar sem tiltekin eru fleiri ákvæði frumvarpsins sem við teljum að þarfnist nánari skoðunar. Það er vissulega svo að 2. gr. og sú breyting sem í henni felst er helsta áhyggjuefni okkar í þessu sambandi. Eins og ég þykist hafa komið inn á í ræðu minni áðan þá vegast þarna á tvö sjónarmið, annars vegar spurningin um sveigjanleikann fyrir forustu ríkisstjórnarinnar og hins vegar um festu og stöðugleika.

Ég læt nægja að minna á að þegar breytingunni var komið á 1969 var það eftir áralangar umræður um að auka þyrfti festu og stöðugleika og kveða þyrfti á um það með skýrari hætti í lögum hvernig ráðuneyti skyldu stofnuð og hvernig ætti að leggja þau af. Það voru því skýrar ástæður og reynslurök sem bjuggu að baki því að núverandi fyrirkomulagi var komið á.

Varðandi atvinnuvegaráðuneytið þá er það allt satt og rétt sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir segir um að hugmyndir af því tagi hafi komið upp í þinginu og í umræðum í þjóðfélaginu almennt á umliðnum árum. Menn hafa reyndar haft svolítið mismunandi hugmyndir um hvernig slíkt ráðuneyti ætti að vera mótað og úr hvaða ráðuneytum ætti að búa það til. Allt er það satt og rétt. En þá spyr ég: Ef það er meiri hluti á Alþingi fyrir því að stofna atvinnuvegaráðuneyti og ef þetta er góð hugmynd sem á sér gamla sögu, er eitthvað því til fyrirstöðu að forsætisráðherra í ríkisstjórn komi með tillögu þar að lútandi í frumvarpsformi til Alþingis (Forseti hringir.) og fái það samþykkt?