139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Stjórnsýslan er í mínum huga það sem ég nefndi áðan, sá stöðugleiki sem heldur áfram við skipti á ráðherrum. Það er ákveðinn stöðugleiki í gangi. Það er ekki skipt út fólki í Fjármálaeftirlitinu þó að skipt sé um ráðherra, ekki heldur í Seðlabankanum, þó að þessi ríkisstjórn hafi reyndar skipt um seðlabankastjóra er það alla jafna ekki gert.

Stjórnsýslan er það kerfi sem heldur utan um rekstur ríkisins óháð stjórnmálaflokkum. Svo koma að sjálfsögðu ráðherrar líka þar að. Um þá gilda lög um ráðherraábyrgð. Við erum búin að draga alla vega einn ráðherra til ábyrgðar með réttu eða röngu. Ég var reyndar afskaplega ósáttur við þann dóm eða þá ákæru sem ég held að hv. þingmaður hafi staðið að. Það er búið að ákæra í því máli og hann er eiginlega sá eini sem hefur verið ákærður. En það eru að sjálfsögðu fjöldamargir aðilar sem bera ábyrgð og stjórnsýslan er einn af þeim aðilum.