139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom margt áhugavert fram í ræðum hv. þingmanns, ekki síst varðandi ráðherraræðið, foringjaræðið, sem var helst gagnrýnt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég get tekið fyllilega undir það að þetta frumvarp virðist ekki vera svar við því heldur virðist það jafnvel ganga enn lengra.

Ég er að velta fyrir mér því sem var líka gagnrýnt harðlega og er þá að einhverju leyti gagnrýni á 2. gr. og kannski fleiri greinar, sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og hjá þingmannanefndinni og við samþykktum öll, en þá var mikið talað um að það væri mikilsvert að formgera og formfesta stjórnsýsluna. Mig langar að heyra kannski aðeins dýpra álit hv. þingmanns á frumvarpinu, hvort hann telji að með því að veita (Forseti hringir.) forsætisráðherra allt þetta vald þá sé það svar við því ákalli sem kom fram í þingmannaskýrslunni, að formfesta yrði að vera skýrari en áður.