139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa athugasemd vegna þess að þetta var nú eiginlega það sem ég var að reyna að benda á í ræðu minni, það hefur kannski ekki komið nógu skýrt fram að vald forsætisráðherra verður gífurlega mikið. Hann getur tekið eitt ákveðið mál frá einum ráðherra og flutt það yfir til annars ráðherra eða sjálfs sín vegna þess að forsætisráðherra er einn af ráðherrunum. Ef honum líkar ekki afgreiðsla einhvers ráðherra, eiginlega sama hvaða ráðherra, t.d. afgreiðsla velferðarráðherra á kjörum aldraðra, gæti hann flutt það yfir til sín og þá er velferðarráðherra orðinn ábyrgðarlaus. Það verður allt mjög skrýtið varðandi ábyrgð á slíkum aðgerðum þegar hægt er að ganga frá málum bæði óformlega og í flýti. Ef menn gengjust inn á tilboð formanns nefndarinnar um að ræða málin mundi ég gjarnan vilja að svona lagað væri formfest þannig að Alþingi legði blessun sína yfir breytingar sem þessar.