139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir að ég spyr um þetta er að ég var að hugsa um þrjú málefni sem verið hafa mikið í umræðunni undanfarið. Eins og ég skil þá breytingu sem lögð er til getur hæstv. forsætisráðherra ákveðið einhliða að færa t.d. málefni varðandi sölu á Grímsstöðum á Fjöllum frá innanríkisráðherra til sín til að afgreiða það mál hratt og pent, eins og mér sýnist að Samfylkingin vilji gjarnan gera.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur staðið vaktina í Evrópusambandsmálinu. Forsætisráðherra virðist þá geta tekið þann hluta út úr ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sett yfir í sitt ráðuneyti eða eitthvert annað til að leysa þann hnút sem þar er. Komi ekki fram frumvarp um sjávarútvegsmálin sem hæstv. forsætisráðherra er sáttur við getur hæstv. forsætisráðherra væntanlega tekið þann hluta yfir í ráðuneyti sitt og skipað nefnd til að semja frumvarp sem henni þóknast.