139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu, sem var um margt ágæt. Þar sem hv. þingmaður átti sæti í hinni svokölluðu þingmannanefnd, sem fór yfir rannsóknarskýrsluna og skilaði tillögum að úrbótum, þeirri nefnd sem hv. þm. Atli Gíslason var í forustu fyrir, langar mig aðeins að velta einu atriði upp. Fjallað hefur verið um að þetta mál sé lagt fram til að bregðast við niðurstöðum þingmannanefndarinnar, stóru línurnar í þessu máli. Hv. þm. Atli Gíslason hefur sagt að hann telji svo ekki vera, stóru straumarnir og meginlínurnar í því gangi raunar þvert gegn því sem lagt var upp með í skýrslu þingmannanefndarinnar. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún er sammála formanni nefndarinnar hvað þetta snertir og hvaða veigamiklu atriði það þá eru.