139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir var með svolítið nýja nálgun í þessari umræðu, lagði mikla áherslu á þætti sem ekki hafa verið sérstaklega mikið til umræðu fram að þessu og mjög gott að fá nýtt sjónarhorn enda hefur hv. þingmaður unnið mikið að því að skoða niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis og hvernig þær samræmast þessum tillögum.

Hv. þingmanni var tíðrætt um formfestu og festu almennt. Ég mundi gjarnan vilja heyra nánar álit hv. þingmanns á einum þætti þess máls sem er hugmyndin um farandembættismenn sem ferðast á milli ráðuneyta með trillu með tölvunni sinni og möppunum og fjölskyldumyndunum í og eru alltaf tilbúnir til að mæta þar sem helst er kallað eftir. Er þetta til þess fallið að auka formfestu eða draga úr henni? Sé niðurstaðan sú eins og mér heyrðist vera að þetta dragi úr formfestu (Forseti hringir.) er þá hægt að finna nýja útfærslu þessarar leiðar þannig að embættismenn geti nýst ólíkum ráðuneytum án þess að allt kerfið (Forseti hringir.) sé í stöðugri upplausn?