139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það eru reyndar nokkrir þættir sem komu fram í ræðu hv. þingmanns sem áhugavert væri að ræða, þ.e. ráðherraræðið, þ.e. að taka völd út úr þinginu og færa þau til forsætisráðherra, og formfestuna í 2. gr. Eins má nefna 4. gr., fundargerðir og upptökur og bera það saman við þá vinnu sem við hv. þingmaður vorum í í þingmannanefndinni þar sem við komum með ábendingar um helstu ágallana í stjórnsýslunni sem voru margir. Margt af því er í frumvarpinu.

Mig langar að inna hv. þingmenn varðandi 4. gr. sérstaklega. Talsvert hefur verið rætt um lausnir varðandi 2. mgr. 4. gr. þar sem það virðist vera möguleiki fyrir forsætisráðherra að færa einstaka málaflokka til með stuttum fyrirvara. Það kann að vera vegna pólitískra aðstæðna sem menn vilja færa vald frá ráðherra sem virðist ætla að taka rangar ákvarðanir. Það er e.t.v. liður í því að auka formfestu, skýra mál og tryggja ábyrgð fagráðherra og annað í þeim dúr sem við fjölluðum sannarlega um í þingmannaskýrslunni.