139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:11]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Ég ætla að byrja á því að rekja forsöguna að málinu sem á að vissu leyti rætur sínar í efnahagshruninu sem varð í október 2008. Ég ætla síðan gera aðeins grein fyrir túlkun minni á því hvers vegna efnahagshrunið varð og reyna að setja það í samhengi við þetta mál.

Um miðjan 10. áratuginn var það mikil lenska hjá seðlabönkum heims, eða Vesturlanda alla vega, að aðskilja bankaeftirlit og seðlabankastarfsemi. Þessum stofnunum voru fengin mismunandi hlutverk þar sem önnur stofnunin hafði eftirlit með fjármálalegum stöðugleika og hin hafði eftirlit með heilbrigði efnahagsreiknings bankanna.

Á sama tíma liðkaðist mjög um fjármagn í heiminum og mikið framboð var af fjármagni, bæði vegna nýfengins ríkidæmis nýmarkaðsríkja eins og Kína og landanna við Persaflóa, olíuríkjanna. Jafnframt hlóðst upp mikið fé í svokölluðum þjóðarsjóðum, sem upp á ensku er kallað „sovereign wealth funds“, þannig að það var gríðarlega mikið framboð af peningum í heiminum. Þeir sem kunna lágmarkshagfræði vita að mikið framboð af einhverju þýðir lægra verð þannig að vextirnir þrýstust niður og um leið jókst bjartsýni og væntingar fjárfesta þannig að áhættufælni minnkaði mikið í heiminum. Sífellt meiri áhætta var tekin og hún varð mjög mikil á Vesturlöndum og fór að hafa áhrif á það sem við köllum fjármálalegan stöðugleika.

Á sama tíma voru tekin upp ný vinnubrögð í peningamálastjórn í heiminum sem kennd eru við verðbólgumarkmið þar sem hlutverk seðlabanka er skilgreint þannig að ef raunhagkerfið er í mikilli uppsveiflu er reynt að hækka vexti til að reyna að slá á einkaneyslu og fjárfestingu og ná þannig tökum á þenslunni. Ef mikill slaki er í hagkerfinu eru vextir lækkaðir og stundum niður úr öllu valdi sem leiðir til þess að ódýrara verður að fjárfesta og að auka neyslu, sem þýðir að hagkerfin sigla upp.

Allir þessir þættir höfðu áhrif; peningamálastjórnin í heiminum, þær aðstæður sem gerðu kleift að aðskilja bankaeftirlit og hefðbundna seðlabankastarfsemi, mikið af peningum á góðum kjörum í heiminum og svo fjórði þátturinn sem ég minntist ekki á áðan, þ.e. hugmyndin um að bankastofnanir ættu að hafa eftirlit með sjálfum sér og skiluðu bara inn skýrslum til eftirlitsyfirvalda sem sýndu að þær fylgdu reglum á fullnægjandi hátt og að ekki væri tekin óhófleg áhætta. Þessar reglur voru kenndar við Baselnefndina svokölluðu. Við fengum fyrstu kynslóð af Basel sem var Basel 1, síðan fengum við Basel 2 og að lokum Basel 3 þar sem mest allt eftirlitið var komið inn í fjármálastofnanir sem héldu utan um innri áhættu, innra eftirlit og annað slíkt og gáfu síðan skýrslu til fjármálaeftirlits viðkomandi lands.

Allt varð það að einhvers konar blöndu sem leiddi að lokum til þess að nú á síðasta áratug byggðist upp kerfisáhætta í þessum löndum sem leiddi að lokum til hins mikla hruns. Ég er búinn að fara yfir hverjar aðstæðurnar voru en það sem ýtti þessum ríkjum fram af bjargbrúninni var að komið höfðu fram ný verkfæri í fjármálaverkfræði og hagfræði sem gerðu kleift að taka enn meiri áhættu, getum við sagt, en sú áhætta var ekki þekkt vegna þess að menn héldu að þetta væri allt saman öruggt. Við þekkjum húsnæðisbóluna í Bandaríkjunum, hvernig hún var drifin áfram af hinum nýju verkfærum á fjármálamarkaði. Við sáum hvernig bankakerfið á Íslandi þandist út á örfáum árum. Sem dæmi um það var að um áramótin 2005/2006 var íslenska fjármálakerfið um 40% af þeirri stærð sem það var þegar það hrundi að lokum í október 2008, sem sýnir að það var gríðarlega mikill vöxtur og þensla. Allir þeir þættir sem ég talaði um áðan hjálpuðust að við að búa til þær aðstæður. Svo bættist að lokum við það sem mönnum hefur kannski orðið tíðræðast um, það er að fífldjarfir fjármálamenn nýttu sér allar smugur til að taka óhóflega áhættu. Mörg ríki Vesturlanda voru orðin að tifandi tímasprengjum og ljóst var að við vissar aðstæður gæti farið mjög illa.

Það rakti ég vel í skýrslu sem ég gaf ásamt félaga mínum út árið 2006, en því miður urðu þær aðstæður til sem ég lýsti hér og sem lýst er í þessari skýrslu. Í júlí 2007 fór að berast orðrómur um að tveir fjárfestingarsjóðir, sem bandaríski fjárfestingarbankinn Bear Stearns hafði á sínum vegum, hefðu fjárfest í húsnæðisbréfum, í svokölluðum „CDOs“, eins og það var kallað á ensku, og væru hætt komnir og töpuðu gríðarlega miklu.

Það gerðist kannski ekki mikið á heimsmarkaði árið 2007 þegar þessar fyrstu fréttir bárust en smám saman varð ástandið erfiðara. Bear Stearns voru hlutaðir upp vorið 2008 og stöðugt meiri erfiðleikar urðu bæði í Bandaríkjunum og í Bretlandi og eins á Íslandi þar sem mikill lausafjárskortur varð í fjármálakerfinu.

Síðan var síðasti naglinn sleginn í líkkistuna 15. september 2008 þegar Lehman Brothers fóru á hausinn, sem ég tel að hafi verið ein mestu mistök bandarískra stjórnvalda í þessari kreppu að láta þá fara á hausinn vegna þess að þá fóru af stað keðjuáhrif um heiminn sem leiddu til þessarar miklu fjármálakreppu sem við upplifum nú aðra bylgjuna af. Það birtist í skuldakreppu ríkja sem notuðu peninga skattborgara til að aðstoða bankakerfi landa sinna. Það er grófa myndin af þessu, við getum sagt að þetta er fjármálakreppan séð úr 10 þúsund feta hæð. Auðvitað sleppti ég því að fjalla um ýmis smáatriði eins og gengur og eflaust hef ég ekki fullan skilning á einhverjum atriðum.

Líður þá að hruninu og því sem gerðist í kjölfar þess sem það mál sem við ræðum í dag á rætur sínar í. Þá var mikil krafa frá almenningi og ýmsum aðilum um að hrunið yrði gert á einhvern hátt upp og orsakirnar fyrir því fundnar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skipaði rannsóknarnefnd Alþingis sem gerði skýrslu sem innihélt gríðarlegar miklar upplýsingar um það sem gerðist í aðdraganda hrunsins á Íslandi — takið eftir, einangrað á Íslandi. Nefndin kom með einhverjar hugsanlegar útskýringar á því af hverju raunverulega hrunið varð, útskýringar sem ég er nær sannfærður um að eru ekki alveg réttar.

Oft vitna menn til skýrslunnar eins og trúarrits; ef rannsóknarskýrsla Alþingis segir það á að gera það. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis mælir með þessu og því verðum við að breyta því. Menn umgangast skýrsluna eins og heilaga kú. Ég held að það sé að verða kominn tími til fyrir okkur Íslendinga, til að geta haldið áfram, til að geta horfst í augu við hvað gerðist raunverulega, að gera okkur grein fyrir því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis varpaði einungis ljósi á hluta þess sem gerðist í aðdraganda hrunsins og í hruninu. Hún reynir á engan hátt að setja þá atburði sem gerðust í október 2008 í samhengi við hluti sem ég lýsti áðan; hvað var að gerast alþjóðlega, hvers vegna það gerðist svo víða og hvernig Ísland passar inn í þá mynd. Það tel ég vera mikinn galla. Ég er þeirrar skoðunar að því lengra sem liðið hefur frá þessum atburðum og frá útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, því sannfærðari verð ég um að hún sýni í besta falli brotakennda mynd af því sem gerðist. Hún lýsir einstaka atburðum vel en heildarmyndina vantar. Skýrslan er gott verk en við eigum að líta þannig á hana að hún sýni okkur einungis hluta af því hvað gerðist.

Það er óhætt að segja að ef hér kæmi marsbúi sem fengi rannsóknarskýrslu Alþingis í hendurnar og læsi hana fengi hann mjög bjagaða mynd af því hvað gerst hefði í heiminum. Marsbúinn mundi fá þá mynd að á Íslandi, í einu af 200 ríkjum heims, hefðu orðið stórkostlegir atburðir af þeim ástæðum sem raktar eru í skýrslunni en hann mundi ekki sjá að það sama hefði gerst í hverju landinu á fætur öðru í heiminum og að vandamálið væri ekki bundið við Ísland, hann mundi halda að efnahagshrunið væri einangrað fyrirbæri á Íslandi. En um leið verð ég að taka fram að þótt atburðirnir á Íslandi séu á engan hátt frábrugðnir því sem gerðist í löndunum í kringum okkur er stigsmunur þarna á vegna þess hversu stórt íslenska bankakerfið var orðið.

Það var fróðleg frétt í Viðskiptablaðinu á dögunum sem höfundur að nafni Óðinn skrifaði. Þar fór hann yfir efnahagsreikning nokkurra stærstu banka Evrópu og bar saman við efnahagsreikning íslensku bankanna í júlí 2008 rétt áður en þeir hrundu. Það var óhuggulegt að sjá hvað kennitölurnar hjá þessum bönkum voru líkar.

Í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var sett á fót þingmannanefnd til að Alþingi gæti á einhvern hátt brugðist við þessu. Sú vinna var um margt ágæt, hún benti á marga hluti sem betur mættu fara í störfum Alþingis og í stjórnskipuninni. Þetta mál á m.a. rætur sínar í því. Uppi voru kröfur í þjóðfélaginu um að breyta þyrfti stjórnarskránni og margir voru þeirrar skoðunar að hrunið ætti einhverjar rætur í stjórnarskránni en þeirri túlkun hafna ég algerlega. Ég tel það vera eina verstu hugmynd sem fram kom í kjölfar hrunsins að stjórnarskráin hafi á einhvern leitt til hrunsins, eins og ég mun rekja mjög vel í október þegar við munum ræða tillögur stjórnlagaráðs, þ.e. ef það verður gert þá.

Jafnframt kom fram tillaga um endurskoðun á lögum um fjármálamarkaði. Þó svo að ég ætli ekki að leggja það að jöfnu við þau atriði sem ég hef talið upp voru það ein helstu viðbrögð stjórnvalda við því sem gerðist að vilja endurskoða lög og reglur um fjármálamarkaði. Ég tel að það hafi verið mjög skynsamlegt en aftur á móti var hroðalega að því staðið. Landsmönnum var gefin ákveðin öryggistilfinning með því að segja að nú væri búið að endurskoða reglur á fjármálamarkaði, en hún var fölsk vegna þess að í raun hefur ekki verið breytt nema örlitlum smáatriðum í stóra samhenginu um hvernig fjármálastofnanir geta starfað.

Sem dæmi um það er eitt af þeim atriðum sem leiddu til þess að bankakerfið óx jafngríðarlega og raun bar vitni, að hér voru fjármálastofnanirnar einkavæddar og seldar til viðskiptablokka sem uxu síðan með bankakerfinu og bankakerfið óx með þeim. Þessar viðskiptablokkir notuðu efnahagsreikninga bankanna eins og sína eigin, eins og hefur komið í ljós, og þær komu með þá miklu kerfisáhættu inn í íslenskt fjármálalíf sem leiddi að lokum til hrunsins. Í dag getur nákvæmlega það sama gerst. Ef svo bæri undir gæti einhver viðskiptablokk keypt 30, 40, 50% hlut í einhverjum viðskiptabankanna af skilanefndunum, eða jafnvel allan bankann. Sú viðskiptablokk gæti hafið uppkaup á fyrirtækjum út um allar koppagrundir og í kjölfarið vaxið gríðarlega, nákvæmlega eins og gerðist á síðasta áratug.

Ég varaði mjög við því þegar þessi endurskoðun á fjármálamarkaði átti sér stað og sagði að við ættum að staldra við og skoða mjög vel hvort við ættum að skilja á milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka vegna þess að viðskiptabankar eru í eðli sínu þannig að þeir geta leitt mikla áhættu yfir skattgreiðendur vegna þess að stjórnmálamenn eru viðkvæmir fyrir því að innstæðueigendur tapi sparifé sínu. Þess vegna stíga stjórnvöld ávallt inn þegar kemur að því að bjarga sparifjáreigendum en í fjárfestingarbankastarfsemi er hægt að hlaða upp áhættu sem getur velt viðskiptabankastarfseminni, sem getur síðan bitnað á skattgreiðendum þegar ríkið reynir að bjarga sparifjáreigendum. Ég benti á, þegar verið var að endurskoða þessa löggjöf, að þarna þyrfti einhvern veginn að skilja á milli til að áhætta af mikilli áhættusækni alls konar fjárfestingarbankamógúla mundi ekki leiða til þess að áhætta byggðist svo mikið upp á viðskiptabankastarfseminni að hætta væri á því að skattgreiðendur fengju það allt saman í hausinn eins og gerðist í Evrópu. Ég varaði mjög eindregið við því og geri það enn. Afleiðingarnar af því er sú skuldakreppa sem við sjáum núna í mörgum ríkjum þar sem ríki notuðu fjármuni skattgreiðenda til að bjarga bankakerfum sínum. En auðvitað var ekki á það hlustað frekar en annað.

Ég hef rakið fjóra þætti sem eiga rætur sínar í hruninu: Rannsóknarskýrslan leiddi til skýrslu þingmannanefndarinnar sem leiddi til þess frumvarps sem hér liggur fyrir um stjórnarskrármálið og síðan er það endurskoðun laga á fjármálamarkaði, reyndar á grunni skýrslu þingmannanefndarinnar. Mér er skylt að geta þess sem ég tel vera dekksta blettinn í sögu Alþingis, það er að meiri hluti þingmanna hafi tekið sig saman um að fara út í pólitískar ofsóknir sem byggðar eru á niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er þeim sem stóðu að því til ævarandi skammar. (RM: Hverjum?) Þér!

Ég vík nú aðeins að þeirri endurskipulagningu sem frumvarpið boðar. Fljótlega eftir að sú ríkisstjórn sem nú er við stjórnvölinn tók til starfa hófu menn að ræða að endurskipuleggja þyrfti ráðuneytin. Þar töluðu menn um að búa þyrfti til fjögur ný ráðuneyti úr sex til sjö ráðuneytum sem þá voru starfandi og úr varð innanríkisráðuneyti sem til varð við sameiningu samgöngu- og dómsmálaráðuneytisins, til varð velferðarráðuneyti, sem er langstærsta ráðuneytið, úr heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti var gert hærra undir höfði og kallað efnahags- og viðskiptaráðuneyti og nafni menntamálaráðuneytisins var breytt í mennta- og menningarmálaráðuneyti, ef ég man rétt. Jafnframt átti að stofna eitt ráðuneyti sem kalla átti atvinnuvegaráðuneyti með sameiningu sjávarútvegsráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis. Það var gert nema fresta þurfti hinu síðastnefnda vegna furðulegrar stöðu í stjórnmálunum; vegna sterkrar stöðu ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála var ekki hægt að búa til atvinnuvegaráðuneyti. Menn lögðust undir feld, hugsuðu hvernig þeir gætu náð fram vilja sínum þrátt fyrir mótstöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans Jóns Bjarnasonar og hluti af þessu frumvarpi á rætur sínar að rekja til þess að verið er að reyna að ná tökum á þeim ráðherra. Við getum alveg sagt að frumvarpið sé samið og lagt fram til höfuðs Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Það er margt ágætt hægt að segja um frumvarpið. Ég er ekki þeirrar skoðunar að lög eigi að vera meitluð í stein þannig að aldrei megi breyta neinu og aldrei megi gera endurbætur en ég held að það sé algerlega ljóst að þeir þingmenn og ráðherrar sem haldið hafa því fram að þetta frumvarp sé einhvers konar viðbrögð við hruninu, eins og ég er búinn að rekja, við rannsóknarskýrslunni, skýrslu þingmannanefndarinnar o.s.frv., séu á algerum villigötum.

Ef við skoðum niðurstöðu þingmannanefndarinnar, ef við skoðum það ákall sem hefur verið í þjóðfélaginu er það tvímælalaust um að völd Alþingis séu tryggð, að tekið sé eins mikið á losaralegum ákvörðunum hjá framkvæmdarvaldinu og hægt er, og eins hefur verið krafa um aukið lýðræði. Ég get ekki séð annað en að 2. gr. í þessu frumvarpi gangi þvert á það allt saman. Þess vegna mundi ég vilja túlka það þannig að frumvarpið gangi þvert á það sem bent var á skýrslu þingmannanefndarinnar frekar en að farið sé eftir því sem þar er bent á.

Hvers vegna segi ég það? Jú, vegna þess að verið er að færa valdið varðandi fjölda ráðuneyta sem tilgreint er í 15. gr. stjórnarskrárinnar frá Alþingi til forsætisráðherra þannig að ef þessi breyting verður að lögum gæti forsætisráðherra upp á sitt einsdæmi fellt niður ráðuneyti, sameinað ráðuneyti, fjölgað ráðuneytum, að vísu bara upp að tíu, sem er tala sem ég mun koma að síðar. Þetta er orðið geðþóttavald hjá ráðherranum, að vísu með ákveðnum öryggisventli, þ.e. að forseti skuli úrskurða um breytinguna. En eins og við vitum er stjórnskipun okkar þannig að forseti gengur gegn ráðherrum eða þingi í algerum undantekningartilfellum, það hefur gerst þrisvar. Það er sem sagt verið að færa völd frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins.

Ef við kíkjum á fleira er í 4. gr. lögð til ákaflega merkileg breyting. Sú breyting gengur út á að nú verður leyft að vera með eins konar farandráðherra. Það birtist í því að við getum t.d. tekið ákveðna þætti úr utanríkisráðuneytinu eins og þróunarhjálpina, og þróunarmálin gætu fengið sérstakan ráðherra. Sá ráðherra héti þróunarmálaráðherra og væri þá til hliðar við utanríkisráðuneytið. Við gætum hugsað okkur annað dæmi, að ferðamálin yrðu tekin úr nýju atvinnumálaráðuneyti, sett í sérskrifstofu og þar yrði sérstakur ferðamálaráðherra. Það er því vandséð hver mörkin eru á þessu öllu saman. En það er algerlega ljóst að það, lesið með 2. gr., getur boðið upp á þann möguleika að forsætisráðherra í allri sinni visku og sýn gæti búið til ótal fjölda ráðuneyta og ráðherra sem mundi einhvern veginn brjóta upp vald ráðherra eins og við hugsum um það í hefðbundnum skilningi.

Jafnframt er mjög furðulegt að fjöldi þessara yfirráðuneyta, ef við getum kallað það sem svo, skuli vera takmarkaður við tíu. Af hverju eru þau ekki átta? Af hverju eru þau ekki tólf? Hvað er það sem kallar á að það séu að hámarki tíu yfirráðuneyti? Það er alls ekki útskýrt í greinargerð með frumvarpinu. Mér hefði þótt gaman að sjá hvernig sú tala var fundin. Var hún dregin úr hatti eða eru einhver sterk rök fyrir því að þau séu takmörkuð við tíu?

Síðan eru hlutir eins og gagnsæi, sem mikið hefur verið fjallað um og mikil krafa var um í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008. Flestallir stjórnmálamenn keppast við að tala um að auka eigi gagnsæi og að gagnsæi eigi að vera mantra dagsins. Við höfum séð mörg dæmi um hvernig stjórnmálamenn og ráðherrar hafa skotið sér undan augum almennings og augum Alþingis sem eftirlitsvald alveg frá hruni, getum við sagt. Menn segjast tíðka gagnsæi, það er að vísu í orði en ekki á borði, en það er alltaf verið að leyna einhverju. Það er alltaf eitthvert baktjaldamakk í gangi, þannig hefur það sennilega alltaf verið og sennilega mun það alltaf verða.

Í frumvarpinu er einhvers gerð konar tilraun til að auka gagnsæi. Það er t.d. gert í 6. gr. frumvarpsins, sem mér finnst athyglisvert. Þar er breytingartillaga sem kveður á um að hljóðrita eigi ríkisstjórnarfundi og að efnið verði bundið trúnaði næstu 30 árin. Það er algerlega ljóst hvað gerist. Ef settar eru einhverjar kvaðir eða höft á menn þá bregðast þeir við með því að breyta hegðun sinni. Það er algerlega augljóst hvað gerist; ríkisstjórnarfundir verða afgreiðslusamkomur þar sem ákvarðanir verða teknar í hliðarherbergjum en ekki við ríkisstjórnarborðið vegna þess að þegar við tökum ákvarðanir, kannski erfiðar ákvarðanir, eru ýmis orð látin falla og ýmislegt sem menn vilja kannski ekki að gerð sé grein fyrir nákvæmlega í framtíðinni. Með því er ég ekki að segja að það eigi að hylma yfir hluti, alls ekki, ég held að það fyrirkomulag sem tíðkast hefur hafi um margt verið ágætt en auðvitað má herða á því. Það er margt ágætt sem hér er lagt til sem herðir á þessum hlutum.

Hér er líka fjallað um að hægt verði að fjölga aðstoðarmönnum gríðarlega. Ég held að ráðherrar vilji við sérstakar aðstæður hafa sérfræðinga sér til aðstoðar en það er líka hægt að misnota það ákvæði með því að fylla öll ráðuneyti af einhverjum pólitískum gæðingum sem mér sýnist að sé raunin miklu fremur en að þetta verði ráðgjafar í ákveðnum málefnum. Oft koma inn pólitískir gæðingar í stað þess að fengin sé sú sérfræðiþekking sem þarf í það og það skiptið.

Mig langar að lokum að tala um 25. gr. Þar held ég að menn séu á villigötum. Þar er segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Forsætisráðherra skipar til þriggja ára í senn samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna.“

Það finnst mér ákaflega merkilegt vegna þess að í mínum huga er siðferði manna ekki afstætt, siðferði er eitthvað sem er inngróið í menningu okkar og við þekkjum öll hvaða siðferðileg viðmið þjóðfélagið hefur. Við vitum að við eigum ekki að stela. Það er að vísu séð fyrir því í lögum og búið að stofnanavæða þau siðferðilegu viðmið þar sem þau eru orðin að lögum. Öll vitum við að við eigum ekki að þiggja mútur, öll vitum við að við eigum ekki að mismuna og annað slíkt, en að stofnanavæða þessi mál með því að búa til eitthvað sem heitir samræmingarnefnd um siðferðileg viðmið finnst mér ákaflega merkilegt.

Ég get á engan hátt fallist á að einhverjir pólitískir gæðingar sem skipaðir eru í nefnd geti samræmt siðferðileg viðmið mín sem ég hef öðlast í gegnum þá menningu sem ég er alinn upp í. Ég held að það sé miklu hreinlegra að fara að lögum. Ef við viljum ekki að stjórnmálamenn brjóti gegn þeim siðferðilegu viðmiðum sem eru í þjóðfélaginu þá gerum við þau einfaldlega að lögum þannig að menn brjóti þá lög ef þeir brjóta gegn þessum viðmiðum. Lögbrjótar verða alltaf til og það er alveg sama hversu margar nefndir verða skipaðar, það munu alltaf einhverjir að brjóta lögin.

Í lokaorðum mínum vil ég segja að þrátt fyrir að ég skilji hugsunina sem liggur að baki 25. gr. er ég ekki sammála þeirri leið sem fara á til að ná fram betri stjórnsýslu, réttlátari stjórnsýslu, gagnsærri stjórnsýslu. Ég legg til að frumvarpið, sem ég hef farið nokkuð ítarlega yfir, verði sent aftur í nefnd og verði endurbætt og lagað og að leitast verði við að mynda samstöðu um málið.