139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við eyðum hér tíma okkar í að ræða mál sem að mínu viti getur ekki talist svo ýkja mikilvægt og í raun alveg furðulegt að við skulum eyða stuttum tíma septemberþingsins í að þrasa um þessa hluti sem, ef vinna væri lögð í og gefinn meiri tími, væri örugglega hægt að leysa í einhvers konar sátt. Ég verð að segja að vinnubrögð forsætisráðherra og þá forgangsröðun sem lýsir sér hér má auðvitað fordæma og sýnir okkur það að núverandi ríkisstjórn er ekki í neinum takti við íslenskt samfélag, gerir sér ekki grein fyrir því hve alvarleg staðan er í samfélaginu og hlustar ekki á fulltrúa í atvinnulífinu, fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, heimilin í landinu. Það kristallast í þeim málum sem eru á dagskrá þingsins, þeim áherslum sem þessi ríkisstjórn hefur í forgrunni, þegar við höfum hér takmarkaðan tíma í september til að reyna þá að ræða einhver merkilegri og mikilvægari mál og koma einhverjum aðgerðum í gang sem geta byggt upp okkar samfélag og gefið bæði fyrirtækjum og almenningi von.

Þá er tímanum eytt í þetta, að velta því fyrir sér að fara að stokka upp ráðuneyti og sameina ráðuneyti, færa aukið vald til ríkisstjórnarinnar, til forsætisráðherra, að þingið gefi eftir eitthvað sem hefur verið rauði þráðurinn í gagnrýni og þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið að við ættum ekki að gera heldur ætti að efla þingið og störf þess og virðingu.

Það hafa verið vangaveltur um að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt ráðuneyti. Ég er því algjörlega andsnúinn. Það er ágætt að rifja aðeins upp af hverju við skiptum á sínum tíma upp atvinnuvegaráðuneytinu í þessi fagráðuneyti. Það er einfaldlega vegna þess að grunnatvinnuvegir þjóðarinnar eru fáir og jafnframt mjög mikilvægir, enn mikilvægari, og það er auðvitað hætta á því að þegar við erum komin í eitt ráðuneyti með allar atvinnugreinarnar saman missum við sjónar á og einbeitingu gagnvart þessum mikilvægum málaflokkum. Ég er alveg sannfærður um að hvar í heimi sem er væri það þannig að það væri alveg sérstakt ráðuneyti utan um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál eins og er hér og utan um iðnaðarmál eins og er hér og þar sem þessar atvinnugreinar hefðu jafnmikið vægi í heildarmyndinni og við sjáum og höfum hér á Íslandi.

Forsætisráðherra leggur mikla áherslu á að ljúka þessu þrátt fyrir þá miklu andstöðu sem er, ekki bara milli ríkisstjórnarflokkanna heldur innan ríkisstjórnarinnar. Hér er keyrt í gegn frumvarp sem fer ekki einu sinni í gegnum ríkisstjórnina með öllum greiddum atkvæðum. Innan ríkisstjórnarflokkanna er mikil andstaða við þetta frumvarp líka og það er svo sem vandséð og óséð hvort þetta frumvarp yfir höfuð fer í gegnum þingið en það er mörgu fórnað af prinsippmálum í samstarfinu til að þessi vinstri stjórn geti haldið áfram óáreitt og unnið eftir duttlungum þeirra sem þar stjórna. Hagsmunaaðilar hafa allir lagst gegn þessu einróma einnig og á gagnrýni okkar og þeirra og fleiri er ekkert hlustað. Þetta er dæmi um mál sem ætti að vinna í miklu meiri samstöðu og í anda þess sem hefur verið rætt um, að reyna að breyta hér vinnubrögðum, og þyrfti miklu vandaðri undirbúning eins og fram hefur komið hjá þeim sem hafa unnið að þessu máli innan nefnda. En það virðist sem slíkt sé ekki til í orðabók hæstv. forsætisráðherra ef henni hentar svo og þá hefur hún upp sína hótanapólitík sem er þekkt hjá þeim sem hafa starfað með henni í gegnum tíðina.

Málið var fellt í allsherjarnefnd. Það varð einhver umræða um það hér hvort það væri rétt að tala um að málið hefði verið þar en auðvitað var málið fellt í allsherjarnefnd þegar það fór ekki í gegnum vinnu nefndarinnar og hv. formaður nefndarinnar, Róbert Marshall, áttaði sig greinilega ekki á því við atkvæðagreiðslu þar að hann hafði ekki meiri hluta í nefndinni til að taka málið út. (Gripið fram í: … taka það út.) Það var fellt og þá hófust hrossakaupin sem svo þekkt eru í þessu stjórnarsamstarfi og menn fóru að reyna að breyta og laga eitthvað til til þess að draga að þessu máli hluta af stjórnarandstöðunni og kannski einhverja þingmenn stjórnarflokkanna sem hafa líf hennar og fjöregg í hendi sér, geta beitt þessum ráðum til að ýta áfram eigin málum og eigin áherslum. Síðan erum við komin með þetta inn í 2. umr. í þinginu. Hér er verið að eyða mikilvægum tíma í þras um mál sem ætti að leysa á allt öðrum vettvangi og ætti að koma miklu betur búið inn í þingið.

Þetta er ekki þinginu til sóma og þetta er ekki til þess fallið að auka virðingu þess eins og við öll höfum talað um að við viljum reyna að gera, auka traust almennings, samfélagsins, gagnvart Alþingi og alþingismönnum og höfum ætlað að sameinast um það en þetta er ekki fallið til þess. Þá kemur fram gagnrýni á málþóf eins og það er kallað þegar við stöndum hér í stjórnarandstöðunni fram á nætur til að halda þessu máli í umræðu og mynda okkur ákveðinn samningsgrundvöll, reyna að mynda okkur ákveðinn grunn til þess að ná ríkisstjórninni, forsætisráðherra, að samningaborðinu og reyna að leysa þessu mál í góðu með okkur.

Málþóf er alveg hundleiðinlegt, það hefur enginn gaman af að standa í því, hvorki stjórnarandstöðuþingmenn né stjórnarþingmenn né fólkið í landinu sem hlustar á þetta, yfir sig hneykslað á þessum vinnubrögðum. En hvað er málþóf? Málþóf er eina verkfæri minni hlutans á þessu þingi þegar ekkert er á hann hlustað. Ég vil meina að því hafi verið hóflega beitt, því hefur verið beitt í málum sem að okkar mati skipta grundvallarmáli og við höfum tekið hér einhverjar lengstu umræður í þingsögunni um mál eins og Icesave og fleiri mál sem mikið liggur við að hljóti frekari umræðu og hljóti frekari vakningu meðal fjölmiðla og almennings í landinu þannig að fólk fari að átta sig á að það á ekki að gagnrýna málþófið heldur líta gagnrýnum augum á það sem verið er að gagnrýna. Þannig tókst þetta með Icesave og fleiri mál og mun takast eins með þetta mál.

Þetta er lítilsvirðing gagnvart þingi sem endurspeglast svo mikið orðið í störfum þessarar ríkisstjórnar og hefur gert um nokkurn tíma. Það vantaði ekki fagurgalann um breytt vinnubrögð en í verkum sínum hafa ráðherrar þessarar ríkisstjórnar sýnt af sér framkomu sem á sér ekki mörg fordæmi.

Ég ætla ekki að fullyrða að þau séu ekki til en þau eru ekki mörg. Við vitum að hér hafa verið slegin met í því að brjóta reglur um meðferð mála varðandi fyrirspurnir þingmanna, það hefur verið dregið svo vikum og mánuðum skiptir að svara þingmönnum einföldum spurningum, hvort sem óskað hefur verið eftir skriflegum eða munnlegum svörum. Nú síðast í umræðum á þingi í gær, í óundirbúnum fyrirspurnatíma, neitaði forsætisráðherra bara að svara einföldum, eðlilegum spurningum þingmanns. Þetta er nokkuð sem við hljótum að þurfa að taka til skoðunar og hljótum að vera öll sammála um að gengur ekki. Auðvitað á hv. forsætisnefnd að beita sér í þessu máli. Auðvitað á virðulegur forseti þingsins, forseti allra þingmanna, að beita sér í svona máli vegna þess að slík vinnubrögð framkvæmdarvaldsins ganga ekki upp.

Þetta leiðir hugann að því hvernig farið er með vald. Krafa samfélagsins er aukin valddreifing. Þegar við stöndum frammi fyrir þeirri mynd sem ég hef hér lýst, hvernig geta þá þingmenn við þessar aðstæður tekið ákvörðun um að auka enn frekar valdheimildir ráðherra? Er eitthvert traust til þess að gera það? Er líklegt að því verði beitt hófsamlega þegar fordæmin eru eins og þau eru? Nei, það endurspeglast í þessu máli sem við ættum að gefa miklu meiri tíma til að ná meiri samstöðu um. Ágreiningurinn fjallar kannski fyrst og fremst um það atriði í frumvarpinu sem við ættum öll að vera sammála um, þ.e. tilfærslu valds frá Alþingi til forsætisráðherra sem er þvert á alla umræðu, þvert á skýrslu stjórnlaganefndar, þvert á niðurstöðu þjóðfundar og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem var samþykkt hér með 63 atkvæðum þar sem grunnkrafan var aukin valddreifing, ekki samþjöppun valds á einum stað.

Eins og ég segi hefur ekki vantað fagurgalann um breytt vinnubrögð en niðurstaðan er allt önnur. Niðurstaðan og upplifun almennings er sú sem við stöndum frammi fyrir að vantraustið gagnvart Alþingi vex. Það er ekkert skrýtið, það er eðlilegt.

Fullyrðingar hæstv. forsætisráðherra um að með þessu frumvarpi sé verið að fara að niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis standast enga skoðun. Það sýnir enn og aftur að hæstv. ráðherra hikar ekki við að snúa hlutunum á hvolf. Allir sem skoða þetta mál af einhverri sanngirni og rýna í skýrslur þær sem ég hef vitnað hér til átta sig á því að þetta er þvert á þá niðurstöðu, þvert á niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis, þvert á niðurstöðu þjóðfundar — voru það ekki 1.000 Íslendingar sem komu saman, með slembiúrtaki, dregnir út? 1.000 manns komu saman til að segja hug sinn, til að endurspegla vilja þjóðarinnar. Þetta er þvert á niðurstöðu þeirra þar sem rauði þráðurinn var aukin valddreifing. Og þetta er þvert á skýrslu stjórnlaganefndarinnar. Þá kemur hæstv. forsætisráðherra fyrir þingið og þjóðina og segir: Ja, ég er að fara að niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Maður veltir oft fyrir sér á hvaða vegferð hæstv. ráðherra er.

Þessi gagnrýni hefur meðal annars komið fram eins og rætt hefur verið um í þinginu frá formanni rannsóknarnefndarinnar og reyndar öðrum nefndarmönnum. Engin haldbær rök hafa komið fram um annað, enda hafa nánast engir stjórnarþingmenn tjáð sig um málið. Þeir hafa ekki flutt eina einustu langræðu hér til að fara yfir rökstuðning sinn fyrir þessu máli. Þetta mál er þannig vaxið að það er ekki hægt að ætla annað en að það muni bjóða heim samþjöppun valds og væntanlega þeirri hættu að það verði aukin misbeiting á valdi, að hæstv. forsætisráðherra fari að stjórna að eigin geðþótta. Við vitum alveg hver hængurinn er í þessari ríkisstjórn, í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Við vitum hug hæstv. forsætisráðherra til að losa þar um og þetta væri auðvitað leið til þess — færa til verkefni og koma einhverju þar frá — þannig að það meginmarkmið sem Samfylkingin hefur að leiðarljósi í öllu okkar starfi og allri okkar endurreisn, sem er aðild að Evrópusambandinu, nái frekar fram að ganga jafnvel þótt að mati margra sé farið á svig við það umboð sem Alþingi veitti í því máli.

Það er fróðlegt að skoða viðsnúning til dæmis hæstv. fjármálaráðherra í þessu máli sem er alveg með ólíkindum en kemur ekkert á óvart. Það kemur ekkert lengur á óvart úr þeim herbúðum þegar kemur að því að skipta um skoðun, sem út af fyrir sig er allt í lagi. Það hefur samt einhver takmörk hvernig menn hafa talað, hverju menn hafa lofað og hvernig efndirnar eru og hvernig menn breyta. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að vitna hér í ræðu hæstv. fjármálaráðherra frá árinu 2007 þar sem hann segir meðal annars 4. júní. Hann vakti athygli á því að á sínum tíma hefði það verið að frumkvæði hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar að gerðar voru tillögur um Stjórnarráðið. Hæstv. fjármálaráðherra segir svo um tilgang þess frumvarps á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Það var það að þessi mál voru komin í algjörar ógöngur vegna þess að í pólitískum hrossakaupum við stjórnarmyndanir á 5., 6. og 7. áratugnum var verkefnum hent á milli ráðuneyta vegna þess að menn höfðu þar algjörlega óbundnar hendur.“

Hæstv. fjármálaráðherra, þá hv. þingmaður, var með öðrum orðum að lýsa frumvarpi sem ríkisstjórnin sem hann situr í átti síðar meir eftir að leggja fram. Síðar segir í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það varð að koma einhverri festu í þessi mál og lagði [þá Bjarni Benediktsson] til að ráðuneytum yrði hvorki komið á né þeim skipt nema með lögum frá Alþingi.“

Síðan segir hann — félagi hans er forsætisráðherra í núverandi ríkisstjórn, formaður annars stjórnarflokksins — og var þá að víkja að ákveðnum tillögum frá ríkisstjórn sem hæstv. forsætisráðherra sat í á þeim tíma, með leyfi forseta:

„Ég er því ekki á neinum villigötum í því þegar ég bendi á að hér er verið að boða breytingu í áttina aftur til þess að framkvæmdarvaldið geti hringlað með þetta skipulag án aðkomu Alþingis þótt það sé að vísu bara að því leytinu til að þarna er lagt til að menn geti sameinað ráðuneyti þá er það samt breyting í þessa átt.“

Það er með öðrum orðum alveg ljóst mál nema hæstv. fjármálaráðherra hafi þá skipt um skoðun — hann hefur að minnsta kosti ekki haft fyrir því að greina okkur á Alþingi frá því — að hann hefur mjög afdráttarlaust, eins og hér hefur verið rakið, talað gegn þungamiðjunni í þessu frumvarpi um Stjórnarráð Íslands.

Einhver líkti hæstv. fjármálaráðherra við vindhana sem er ekkert ómakleg samlíking. Vindhani snýst eftir því hvernig vindurinn blæs. Það er því ekki hægt að segja annað en að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið þannig í mjög veigamiklum málum eins og í aðildarviðræðum að Evrópusambandinu, Icesave-málinu og fleiri málum. Hann hikar ekki við að söðla um úti í miðri á, allt í þágu aukinna valda. Hann hikar ekki við að fara gegn samþykktum Vinstri grænna, þeim loforðum sem hann hefur gefið, þ.e. á móti grasrótinni. Nú síðast verðum við vitni að því hvernig hann hefur hagað vinnubrögðum sínum í þessu Magma-máli sem er hreint með ólíkindum þar sem loforð og hástemmdar yfirlýsingar eru gefnar til íbúa á Suðurnesjum, til fólks á Suðurnesjum, og hástemmdar yfirlýsingar gefnar á grasrótarsamkomum Vinstri grænna en síðan kemur í ljós þegar farið er að rýna í málið að hann hefur virt það allt að vettugi.

Þetta allt staðfestir í raun þá sýndarmennsku sem einkennir meiri hlutann þegar rætt er um aukið gagnsæi og aukna lýðræðisást. Hér er haldið áfram á þeirri vegferð sem hæstv. ríkisstjórn er á og hefur einkennt vinnubrögð hennar. Það er með ólíkindum hve illa hefur tekist til í íslensku samfélagi og það endurspeglast fyrst og fremst í því mikla vantrausti sem nú ríkir hjá almenningi í landinu sem er algjört og hjá aðilum vinnumarkaðarins sem eru búnir að gefast upp á nokkru samstarfi við þessa ríkisstjórn. En það er haldið áfram á þessari braut.

Gerðar hafa verið breytingar á Stjórnarráðinu í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það hefði kannski verið ágætisvegferð að skoða árangurinn af þeim. Hefur verið skoðað hvernig tókst til með sameiningu heilbrigðisráðuneytis og trygginga- og félagsmálaráðuneytis í velferðarráðuneyti og dómsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis í innanríkisráðuneyti? Hefur þetta skilað því sem að var stefnt? Hefur þetta skilað meiri afköstum á þeim bæjum? Hefur starfsmönnum fækkað og hagræðing orðið? Hefur kostnaðurinn minnkað? Það liggur ekki fyrir. Ég ætla að fullyrða, sem skoðun mína, án þess að hafa fyrir því staðfastar tölur að það hafi verið á hinn veginn, að kostnaðurinn hjá þessum ráðuneytum sé meiri en áður, starfsmannafjöldinn sé meiri en áður. Nú skulu menn leggja fram gögn sem sýna annað. Til hvers er farið í þessa vegferð, ef það væri nú niðurstaðan? Af hverju?

Það er stórt spurt og það vantar einhverjar röksemdir fyrir því að halda áfram.

Ég kom inn á það áðan að margir halda því fram að tilefnið sé sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og ESB-aðildarviðræður ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Það er alveg augljóst mál að þetta tengist. Auðvitað er það ekkert óeðlilegt vegna þess að málefni atvinnuvega verða fyrirferðarmest í viðræðum við Evrópusambandið. (RM: … hvalveiðar.) Þau verða fyrirferðarmest. Já, t.d. hvalveiðarnar, hv. þm. Róbert Marshall. Ég held að það sé morgunljóst og við getum alveg talað um það af hreinskilni að það verða (Gripið fram í.) ekki heimilaðar hvalveiðar á Íslandi ef við verðum aðilar að Evrópusambandinu.

Fyrir mig er það næg ástæða til að segja nei við þeirri aðild og ég er alveg viss um það að svo á við um stóran hluta þessarar þjóðar. Sjálfstæði hennar og sjálfstæði okkar er okkur mikilvægara en svo að við séum tilbúin að fórna því á þessu borði, og því ákvarðanavaldi sem við höfum yfir okkar eigin náttúruauðlindum. Það er í þágu þeirrar vinnu sem hæstv. forsætisráðherra vill geta forgangsraðað verkefnum að eigin geðþótta, til að það starf geti haldið áfram. Öllu skal fórnað á altari aðildarviðræðna ESB. Það er alveg sama fyrir hvaða málefni flokkarnir standa, við sjáum það kristallast í því hvernig þingmenn Vinstri grænna og forusta þess flokks fer gjörsamlega á svig við allt sem hún hefur boðað fram að þessu. Mér liði ekki vel að vera innan borðs í þeim hópi eða í hverjum þeim hópi sem hefði þurft að snúa svo við blaðinu.

Einhverjir þingmenn hafa sagt að umhverfisráðuneyti ætti að vera meginráðuneyti allra ráðuneyta. Í mínum huga er umhverfisráðuneytið dæmi um ráðuneyti sem má leggja niður. Þar væri hægt að spara alveg heilmikið. Það ættu að vera umhverfisdeildir í atvinnuvegaráðuneytunum þannig að við tryggðum hagsmuni á vettvangi, þá hagsmuni sem ber að verja þar. Ég er ekkert að ýja að því, með þessari skoðun minni, að minni áhersla verði lögð á að koma af virðingu fram við náttúruna og horfa til langrar framtíðar í þeim efnum. En þetta ráðuneyti á ekki að vera meginráðuneytið vegna þess að við sjáum það öll sem viljum skoða það hvaða hætta er falin í því gagnvart grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Við sjáum það öll að þær skoðanir sem allt hverfist um hjá því fólki sem á þeim vettvangi starfar; þar stendur allt til þess að auka flækjustig, lengja ferli. Þetta eru staðreyndir, þetta er bara staðreyndir máls. (Gripið fram í.) Við þessu hefur verið varað, ekki bara af okkur í stjórnarandstöðunni, Sjálfstæðisflokknum. Við þessu hefur verið varað af aðilum vinnumarkaðarins. Ég minni til dæmis á nokkuð harðorða ályktun frá þingi ASÍ nákvæmlega um þessi mál. Ég minni á skýrslu sem gerð var um samkeppnishæfi Íslands.

Hún er dýr, ákvörðun Vinstri grænna um að styðja aðildarferlið að Evrópusambandinu. Það kallar á mikil hrossakaup og lítil afköst. Þingmenn og ráðherrar í báðum flokkum verða að gera þvert um hug sinn, ítrekað, í stórum dæmum. Um þetta eru fjölmörg dæmi, algjör óeining, ágreiningur öllum ljós. Þrátt fyrir það kemur hæstv. forsætisráðherra fram og segir að allt sé í lagi á stjórnarheimilinu, það sé ekkert að á þeim bæ. Og fólk í landinu hlær, þ.e. fólk er eiginlega hætt að hlæja, því er ekki lengur skemmt.

Staðreyndin er sú að þessi ríkisstjórn er nánast óstarfhæf, hún er ekkert annað en hræðslubandalag og það er pattstaða í íslensku samfélagi. Slök málefnaleg staða hennar og fordæmislaus vinnubrögð eru fyrst og fremst kveikjan að því. Hún fékk mikinn byr, þessi ríkisstjórn, og hæstv. forsætisráðherra ekki síður. Það voru miklar væntingar, traustið mikið enda loforðin stór. Skjaldborg um heimilin, stöðugleikasáttmáli, allur fagurgalinn í kringum þetta. Og hver er niðurstaðan? Er sátt? Er traust? Er fólk tilbúið að leggja á sig að taka á í vegferðinni lengur? Nei, það vill stokka upp. Íslensk þjóð vill stokka upp, hún vill fá að kjósa um framtíð sína, hún kaus um fortíðina þegar gengið var til síðustu kosninga, hún vill fá að kjósa um framtíðina núna. Og nú á að fara þvert á vilja fólksins í enn einu málinu, það á að fara þvert á skýrslu rannsóknarnefndar, allt til að auka eigin völd, þjappa saman valdi á einn stað á meðan valddreifing er rauði þráðurinn í gegnum gagnrýnina. Þetta minnir orðið á stjórnarhætti í ráðstjórnarríkjunum, liggur manni við að segja.

Nú er verið að eyða tíma í óþarfa eins og ég sagði áðan, haustuppsagnir eru farnar að dynja á okkur. Það er ömurlegt að heyra að einn stóru bankanna hafi þurft að segja upp 60 manns. Ég heimsótti vinnustaði í síðustu viku þar sem voru 20 starfsmenn fyrir mánaðamót, þeir eru 12 núna eftir mánaðamót, átta var sagt upp. Þessi dæmi eru allt of mörg. Áfram flytur fólk úr landi. Hagvöxtur er minni en áætlað var og störfum fjölgar ekki. Það er mikil hræðsla erlendra og innlendra fjárfesta, eins og kemur fram í þeirri falleinkunn sem við fengum í skýrslu Pricewaterhouse Coopers í Hollandi sem unnin var fyrir Fjárfestingarstofu í september 2010 þar sem niðurstaðan er að helsta ógnin við fjárfestingu á Íslandi sé stjórnleysi. Þetta eru utanaðkomandi, hlutlausir aðilar á alþjóðavettvangi sem unnu þessa skýrslu og hún hefur ekki farið hátt. Ég ætla ekki að segja að henni hafi verið stungið undir stól en hún hefur ekki farið hátt. Ég hef minnst á hana hér nokkrum sinnum í ræðu. Það hefur ekkert breyst síðan þá, staðan hefur ekki skánað.

Framtíðarskýrsla Landsvirkjunar er í raun sú birta sem við höfum að horfa til. Af hverju erum við ekki að ræða þau mál hér frekar en að eyða tíma okkar í þetta? Af hverju erum við ekki að því? Ef framtíðarskýrsla og hugmynd Landsvirkjunar gengi nú eftir er í áætlunum hennar reiknað með 20 milljarða fjárfestingu á næsta ári af þeirra hálfu, á árinu 2013 35 milljarðar. Ef við tökum með þá áætlun sem hún setur fram um fjárfestingu í iðnaði samhliða orkuöflun yrði fjárfestingin á næsta ári 35 milljarðar og á árinu 2013 64 milljarðar. Þetta er það sem við eigum að vera að tala um hér í þinginu, hvernig við ætlum að bregðast við og byggja upp samfélag okkar að nýju, en ekki kjaftæði sem er hér á borðum okkar í boði hæstv. ríkisstjórnar. Óþolandi. Áhrif orku- og iðnaðarfjárfestinga á fjölda starfa árið 2012, ef ákvarðanir væru teknar, væru hátt í 2.000 störf og á árinu 2013 3.000 störf. En til þess að þetta geti gengið eftir, virðulegur forseti, þarf að taka ákvarðanir sem þessi ríkisstjórn er ekki bær til að taka. Hún hefur ekki baklandið innan eigin raða til að taka þessar ákvarðanir.

Mig langar að fara aðeins betur yfir þau stórkostlegu áhrif á íslenskt samfélag sem þetta mundi hafa. Mig langar, með leyfi forseta, til að grípa niður í þessa skýrslu Landsvirkjunar og lesa kafla undir heitinu „Efnahagslegur ábati vegna aukinna umsvifa á krepputímum“. Þar er verið að tala um fyrri fjárfestingar.

„Fyrsta kastið hittu framkvæmdir vegna orku og stóriðju á Íslandi beint í mark í þjóðhagslegum skilningi þar sem töluverður slaki var í hagkerfinu undir lok sjöunda áratugarins þegar framkvæmdir við ÍSAL í Hafnarfirði fóru fyrst af stað og það sama átti við á tíunda áratugnum þegar álver var byggt á Grundartanga og ÍSAL stækkað. Þessar heppilegu tímasetningar skipta töluverðu máli þegar þjóðhagslegur ábati er annars vegar. Þetta kemur vel fram í grein sem Páll Harðarson ritaði í Fjármálatíðindi árið 1998 og nefndist „Mat á þjóðhagslegum áhrifum stóriðju á Ísland 1966–1997“. Þar kemst Páll að þeirri niðurstöðu að 60% af þjóðhagslegum ábata landsins vegna stóriðju á árabilinu 1966 til 1997 megi einmitt rekja til þessara hagstæðu tímasetninga þar sem stóriðjuframkvæmdirnar mættu annars vegar síldarbresti og hins vegar skerðingu á aflaheimildum í þorski. Hið sama mun verða upp á teningnum aftur þar sem tímasetning orku- og stóriðjuframkvæmda virðist vera ákaflega heppileg nú um stundir þar sem slakinn í þjóðarbúskapnum hefur líklega aldrei verið meiri frá stríðslokum.“

Þetta segir í þessari skýrslu, virðulegi forseti. Það er fróðlegt að lesa meira hérna sem ég ætla að fá að gera. Þá gríp ég hér niður í kafla þar sem fjallað er um arðgreiðslur Landsvirkjunar í samhengi opinberra fjármála:

„Miðað við framreikning á landsframleiðslu verða arðgreiðslur og skattgreiðslur LV ásamt afleiddum skattaáhrifum mögulega um 3–6% af landsframleiðslu eða um 9–14% af tekjum ríkissjóðs á þessum tíma. Þetta er sýnt nánar á mynd 34 og mynd 35 þar sem áhrif arðgreiðslnanna, bein ásamt ofangreindum skattaáhrifum, eru sýnd sem hlutfall af landsframleiðslu og tekjum ríkissjóðs. Einnig má sjá samanburð helstu útgjaldaflokka ríkissjóðs miðað við núverandi kostnaðarskiptingu ríkisútgjalda á fyrri myndinni og samanburð við helstu tekjuflokka ríkissjóðs á seinni myndinni. Sést að greiðslur frá LV gætu mögulega greitt fyrir háskóla, framhaldsskóla, menningu/íþróttir/trúmál og löggæslu/dómstóla/fangelsi.“ — Ef farið yrði að þessum tillögum og þessari framkvæmdaáætlun. Eða þá að við snerum því við og þetta stæði undir öllum kostnaði við allt heilbrigðiskerfið okkar. Áhugavert, er það ekki? (Gripið fram í.) Er þetta ekki áhugavert?

En hvað erum við að gera? Þegar þetta liggur fyrir, þessar áætlanir, frá hlutlausum aðilum um áhrif þess að fara í eflingu orkufreks iðnaðar — og það skal þá tekið fram að í tillögum Landsvirkjunar er fyrst og fremst horft til virkjanakosta sem eru augljósir. Ekki er verið að draga inn í þessa mynd þá kosti sem eru á gráum svæðum. Það er ekki verið að draga þá inn í þessa mynd sem mikill ágreiningur er um. Norðlingaalda er til að mynda ekki inni í þessum hugmyndum, en neðri hluti Þjórsár er það.

Ef við berum þessar arðgreiðslur saman við skatttekjur ríkissjóðs gætum við einnig farið aðra leið í að nýta þessa miklu fjármuni. Við gætum til dæmis fellt niður öll vörugjöld í landinu, við gætum fellt niður eignarskatta, skatta á fjármagnstekjur, skatta á tekjur og hagnað lögaðila eða afnumið tryggingagjöld eða lækkað skatta á tekjur og hagnað einstaklinga um helming eða lækkað almenna skatta á vöru og þjónustu um þriðjung. Áhugavert?

Virðulegi forseti. Skyldu hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og ríkisstjórnin sjálf hafa kynnt sér þetta? Nei. Og af hverju getum við þá ekki rætt þetta mál? Þá komum við að kjarna málsins, af hverju við þurfum að eyða mikilvægum tíma okkar í þetta karp um mál sem skipta mjög litlu? Það er einmitt þessi ríkisstjórn og þessir ríkisstjórnarflokkar. Þeir geta ekki komið sér saman um það að ræða þau mál sem skipta öllu máli. Það er ekki hægt vegna þess að í stjórnarsáttmála þessarar hæstv. ríkisstjórnar segir að engar ákvarðanir verði teknar um frekari framkvæmdir í orkufrekum iðnaði fyrr en rammaáætlun liggur fyrir. (Gripið fram í: Nú ættirðu að vera ánægður.) Og hver er nú staðan með rammaáætlun? Jú, hún er núna í umsagnarferli hjá iðnaðarráðuneytinu. (MÁ: Ja, hérna.) Því umsagnarferli eða skoðunarferli á að ljúka um mánaðamót nóvember/desember. Þá á eftir að koma með þetta mál inn í þingið, þá á eftir að ræða þetta hér. Og það er nú ekki eins og að við séum öll samstiga í hugmyndum okkar um þessa framtíð, þá allra síst ríkisstjórnarflokkarnir. Það er reyndar stór meiri hluti þingsins sammála en hv. þingmenn Vinstri grænna hafa sumir hverjir sagt að þeir muni ekki styðja þetta ríkisstjórnarsamstarf verði teknar ákvarðanir á þessum vettvangi. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki þor til þess eða getu að leggja lóð sitt á vogarskálarnar hinum megin og setja sömu skilyrði þannig að það er í raun fámennur hópur sem heldur þinginu í gíslingu í þessum málum.

Virðulegi forseti. Við erum að eyða tíma okkar til lítils hér en við munum halda því áfram af því að þetta er mikilvægt mál. Það er mikilvægt að sú samþjöppun valds sem felst í þessu máli, þvert á allar niðurstöður rannsóknarnefndar þingsins og þjóðfundarins svo að eitthvað sé nefnt, verði ekki að veruleika. (Forseti hringir.) En ég hvet hv. þingmenn til að söðla nú um og fara að taka hér á dagskrá (Forseti hringir.) mál sem skipta einhverju.