139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:32]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg augljóst og á allra vitorði að forsætisráðherra hefur mikil völd, en það skiptir miklu máli að þau völd séu ekki sett í lög. Af því að ég þykist vita að hv. þingmaður er að tala um reynslu mína af því að hafa unnið með fimm formönnum Sjálfstæðisflokksins, frá Geir Hallgrímssyni — og einn var frægur fyrir snarpar ákvarðanir, Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Sérstaða Davíðs Oddssonar, ég bara nefni það til fróðleiks fyrir hv. þingmann, var sú að þegar hann var undir, það var oft sem hann var undir í málum, þá tók hann það upp á sömu sekúndu sem sitt mál og kom út sem sigurvegari. Þetta er bara hluti af starfssviði stjórnmálamanna en alræðisvald á ekki að vera í lögum.