139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á ýmislegt sem snertir frumvarpið og þar af leiðandi íslenskt þjóðfélag um leið. Í 5. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Nú er stjórnarmálefni flutt milli ráðuneyta, sbr. 4. gr., og skal þá ljúka meðferð ólokinna stjórnsýslumála í því ráðuneyti sem við málefni tekur.“

Nú kann að vera að þetta sé orðað með þessum hætti í dag en það er margt annað í kringum frumvarpið eða lögin í dag sem er öðruvísi, þ.e. það er reglugerð sem er sett o.s.frv. Sér hv. þingmaður sömu hættu og sá er hér stendur á því — við vitum að núverandi forsætisráðherra hefur sterkar skoðanir á ákveðnum málum eins og sjávarútvegsmálum og málum Evrópusambandsins og þess háttar — að forsætisráðherra beiti þessari aðferð þegar ekki er skýrt (Forseti hringir.) kveðið á um hvar stjórnarmálefni á að vera eftir heiti ráðuneytis (Forseti hringir.) eða slíkt að ráðherra taki það einfaldlega?