139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi þess hversu mikil áhersla er lögð á að þetta mál fái framgöngu hvað telur hv. þingmaður að búi þar að baki? Af hverju er svona mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga núna á þinginu? Af hverju má ekki taka önnur mál til umræðu og á dagskrá sem meira máli skipta og menn eru sammála um?

Nú liggur ljóst fyrir að þetta rataði inn í ályktun Evrópuþingmanna sem átti að leggja fyrir síðasta vor, þar sem átti að fagna því að þessar stjórnarráðsbreytingar næðu fram að ganga. Mig langaði að fá að vita hvort hv. þingmaður telji að þetta tengist að einhverju leyti þessu eina máli hæstv. forsætisráðherra sem er Evrópusambandsumsóknin. Það væri kannski gott að hann færi örlítið yfir það hvort hann teldi að þetta tengdist eitthvað.