139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að stundum er það þannig að spurningu sem vaknar við ræðu hv. þingmanna er svarað í miðri ræðu og maður hefur þá ekki ástæðu lengur til að spyrja um þau ákveðnu atriði. Víst getur komið fyrir að menn falli þá frá andsvari.

Til þess að við virðum nú málfrelsi hver annars og virðum að í andsvörum er ræðutími takmarkaður, mundi ég leggja til sem lausn á þessu vandamáli að þegar spurningu hv. þingmanna sem óskað hafa eftir andsvari, er svarað í ræðu þingmanna, að þeir falli frá orðinu og gefi þar með öðrum hv. þingmönnum tækifæri til að spyrja þeirra spurninga sem brenna á þeim og eiga orðastað við þingmanninn. Þannig held ég að við getum öll tekið tillit hver til annars (Forseti hringir.) í þingsal.