139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir orð síðasta ræðumanns og ég tel að það sé jafnvel ástæða til þess að áminna nokkra þingmenn vegna þeirra ummæla sem falla í umræðunni. Hér koma stjórnarþingmenn, aðallega þingmenn Samfylkingarinnar því það er nú ansi lítið um þingmenn Vinstri grænna í salnum við þessar umræður sem er mjög einkennilegt, einungis einn þingmaður á mælendaskrá það sem eftir lifir kvölds.

Það er svolítið einkennilegt að upplifa það að hér séu sjálfskipaðir siðaverðir, þá er ég sérstaklega að vísa til, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, þeirra hv. þm. Marðar Árnasonar og hv. þm. Róberts Marshalls. Það er skrýtið að upplifa það að hér séu einhverjir kroppatemjarar starfandi í þinginu á vegum ríkisstjórnarinnar sem koma upp í miklum æsingi með ábendingar til okkar þingmanna eins og enginn sé morgundagurinn og eins og þessir aðilar hafi aldrei setið sjálfir (Forseti hringir.) í stjórnarandstöðu.