139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þess ber að geta í upphafi, vegna þess að þingmaðurinn beindi því út í sal að hún teldi að það liti út fyrir að einstakir þingmenn væru með hæstv. forsætisráðherra á heilanum, að ég fell ekki undir þann hóp þannig að þingmaðurinn verður að leita hófanna annars staðar.

Það sem kom fram í máli þingmannsins varðandi það að þetta mál sé fullþroskað vil ég minna á að málið féll í allsherjarnefnd. Það var ekki hægt að taka málið þaðan út vegna þess að ósamkomulag var um það meðal stjórnarliða, sú atkvæðagreiðsla fór 5:4 og málið náðist ekki úr nefnd. Þess vegna var farin sú leið að koma með þessar breytingartillögur, m.a. út af þagnarskyldunni. Þingmaðurinn fór sjálf yfir það að hún er með fyrirvara á nefndarálitinu og breytingartillögunum, vegna þessa þagnarákvæðis og telur hún að 30 ára þagnarskylda sé ekki nægjanleg. Ætlar þingmaðurinn að styðja þá breytingartillögu sem fyrir (Forseti hringir.) liggur þar sem kveðið er á um þagnarskyldu í 30 ár?