139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið vegna þess að í því birtist einmitt sá skilningur sem ég hef lagt í breytingartillögu meiri hlutans um ákvæðið, þ.e. að heimilt verði að hafa fleiri en einn ráðherra í sama ráðuneyti. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort það er gott eða vont og hvort á því eru gallar eða kostir en mér finnst gott að þessi skilningur liggur fyrir af hálfu hv. þingmanns. Þetta er nefnilega ekki alveg ljóst af lestri nefndarálits meiri hlutans og ég held því að þetta verði til að skýra aðeins umræðuna um ákvæðið.

Annað atriði sem ég vildi nefna að lokum, hæstv. forseti, er það sem hv. þingmaður sagði í lok ræðu sinnar um að hún teldi mikilvægt að málið næði fram að ganga. Ég vil því spyrja hana hvort að efnislega sé eitthvað í frumvarpinu sem er tímabundið, brýnt eða gerir að öðru leyti kröfu (Forseti hringir.) til þess að við ljúkum málinu núna á septemberþinginu, eitthvað sem kemur efnislega í veg fyrir að það geti beðið haustþings.