139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri á hv. þingmanni að þetta hefur verið rætt ítarlega. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að það sé mjög skynsamlegt að gera þetta þannig, sérstaklega þegar verið er að ráða inn nýja starfsmenn. Ég er ekki að tala um að það eigi að breyta starfskjörum starfsmanna sem fyrir eru, það er væntanlega ekki hægt, starfsmannalögin verja væntanlega þá starfsmenn. En ég hefði talið það mjög til bóta, eins og hv. þingmaður lét liggja að í svari sínu, ef sett yrði á laggirnar ein mannauðsskrifstofa yfir Stjórnarráðið í heild sinni. Það hefði verið mjög farsæl niðurstaða, held ég. Mér hefði getað hugnast hún mjög vel af því að það er skynsamlegt að geta fært til starfsfólk, ekki aðeins til að fólk kulni ekki í starfi eins og hv. þingmaður orðaði það, heldur líka til að geta létt undir þegar mikið álag er á ákveðin ráðuneyti.

Ég hefði talið betra ef þetta hefði verið rætt betur í hv. allsherjarnefnd og niðurstaðan hefði verið sú (Forseti hringir.) að stofnuð hefði verið ein mannauðsskrifstofa fyrir Stjórnarráðið í heild sinni.