139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég vil frábiðja mér að í hvert skipti sem hv. þingmaður kemur í ræðustól að hún þurfi að byrja á því að ala mig og alla aðra þingmenn upp sem hún á orðastað við. Þetta er leiður ávani og ég vil biðja hv. þingmann að láta af honum. Ég hef skilið þessa umræðu mjög vel og hef fylgst með henni nærri frá orði til orðs og þarf enga umvöndun frá hv. þingmanni.

Annað sem ég vildi spyrja hv. þingmann um er varðandi starf aðstoðarmanna sem ég þekki ágætlega, hafandi sjálf verið aðstoðarmaður ráðherra í þremur ráðuneytum í níu ár. Ég deili þeirri skoðun að þetta sé mikilvægt starf og að pólitísk stefnumótun sé mikilvæg. Ég mun fara betur yfir það í ræðu minni hvað mér þykir um það sem hér er lagt til.

Eitt er það sem lagt er til í frumvarpinu og ég vildi fá útskýringar hv. þingmanns á. Það er erindisbréfið sem ráðherra á að setja ráðuneytisstjórum og sérstaklega aðstoðarmönnum. (Forseti hringir.) Hvað á að vera í slíku erindisbréfi? Er ætlunin að hver ráðherra setji aðstoðarmanni sínum eða aðstoðarmönnum erindisbréf eða á þetta að vera í stöðluðu formi?