139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi skal á það minnst að ríkisstjórnin er nú þegar komin út í skurð með þær sameiningar sem hún hefur staðið fyrir síðan hún tók við völdum. Við vitum öll að velferðarráðuneytið er orðið allt of stórt og ekki er vinnandi vegur fyrir einn ráðherra að ráða við þau verkefni sem þar liggja með 60 eða 70% af ríkisútgjöldum undir. Það er alveg klárt. Þetta er kannski leið til þess að fara að brjóta það upp aftur. En þá segi ég líka: Til hvers var af stað farið í það að sameina með svo freklegum hætti þessi ráðuneyti?

Innanríkisráðuneytið hefur gengið í gegnum breytingar — að sameina samgöngumál og málefni dómstóla, þetta eru alfarið óskyldir málaflokkar, en það er hægt að leysa það með því að dreifa aðstoðarráðherrum í þessi ráðuneyti, þá hafa þeir stöðu ráðherra. Það hlýtur að vera tilgangurinn með þessu.

Þá segi ég líka eins og ég sagði hér í fyrstu ræðu minni í þessari umferð: Hvers vegna er þá bara ekki vegurinn genginn á enda þannig að hér sé bara eitt ríkisapparat? Starfsmenn Stjórnarráðsins eru rúmlega 500. Íslenska þjóðin telur á bilinu 320–330 þús. manns eftir því hve margir teljast brottfluttir, ég hef ekki nýjustu tölur um það. Af hverju höfum við bara ekki eitt ríkisforsætisráðuneyti sem hefur alla málaflokka undir, allir starfsmenn undir sama þaki og þetta bara rekið eins og millistórt fyrirtæki á landsvísu? Auðvitað eigum við að gera það fyrst verið er að leggja þetta til, stíga skrefið alla leið, sameina þetta. Það yrði gríðarlegur sparnaður strax í upphafi. Það þyrfti einn ráðuneytisstjóra, einn skrifstofustjóra; sparnaðurinn er augljós. En ríkisstjórnin hefur ekki kjark til að ganga alla leið, sem allir sjá (Forseti hringir.) að er skynsamlegasta leiðin fyrir fámenna þjóð sem stendur höllum fæti fjárhagslega.