139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég ætla að biðja hv. þm. Mörð Árnason að leyfa mér að flytja þetta andsvar, hann getur sjálfur flutt sín. Ef hann hefur eitthvað við það að athuga getur hann komið upp undir liðnum fundarstjórn forseta og sagt forseta hvernig haga eigi andsvörum. Ég vil hins vegar þakka Merði Árnasyni fyrir að sýna ræðum okkar áhuga.

Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir ræðu hennar þar sem hún ræddi um aðstoðarmennina. Það er að sjálfsögðu hægt að eyða töluverðum tíma í að velta því fyrir sé hvað vakir fyrir mönnum varðandi þá. Það er eitt sem ég saknaði, það getur verið að ég hafi misst af því þegar hv. þingmaður fór yfir það, en í 4. og 5. gr. frumvarpsins er rætt um stjórnarmálefni og hvernig hægt er að fara með þau milli ráðuneyta. Í 5. gr. segir að sé stjórnarmálefni flutt frá einu ráðuneyti í annað eigi að ganga frá því í því ráðuneyti sem hreppir hnossið. Hv. þingmaður nefndi að taka þyrfti út 2. gr. og ræða svo um hvernig við klárum hitt. Ég hef mikinn fyrirvara gagnvart því að það sé gert, af því að 4. og 5. gr. hanga saman, að dregið sé úr því eftirliti eða þeirri síu sem Alþingi getur mögulega haft með því að taka út það sem er í lögunum í dag þar sem er sérstaklega kveðið á um að það sé skýrt hvert stjórnarmálefnið er.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi kannski misst af yfirferð hennar yfir þessar greinar, því að mér finnst þetta skipta miklu máli. Það er ekki nóg að henda bara út 2. gr., það þarf þá að komast til botns í því hvað það þýðir nákvæmlega, hvernig 4. og 5. gr. fúnkera. Það er töluverð breyting á þeim miðað við (Forseti hringir.) lögin eins og eru í dag og reglugerðirnar sem fylgja.