139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt við vinnubrögðin og uppstillingar á dagskránni sem hægt er að velta vöngum yfir, t.d. varðandi þetta mál. Það var í spreng í vor og var ýtt til hliðar af því ekki var hægt að klára það. Það er í spreng núna og varla hægt að klára það. Ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum málið er ekki tekið af dagskrá og endurflutt í byrjun október, þá væri það búið í byrjun nóvember því að við vitum alveg hvernig málin ganga fyrir sig á þeim árstíma, í staðinn fyrir að láta þau mál sem eru umdeild og heit alltaf lenda í kösinni síðast. Ég verð bara að segja að ég skil ekki þau vinnubrögð. Kannski er ekkert við því að gera, en ég skil ekki að þetta sé gert svona þegar það er alveg augljóst að klára mætti mál með einföldum hætti, eins og forsætisráðherra vill, þó að stjórnarandstaðan fengi tækifæri til að tjá sig, í október, jafnvel fram í nóvember. Þingsköpin eru þannig að málin klárast ef við gerum þetta svona. Þess vegna skil ég ekki af hverju við erum í þessum spreng og hendum öllum öðrum málum aftur fyrir, við viljum að sjálfsögðu sjá ákveðnar breytingar á þessu.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar er rætt um formfestu eins og hv. þingmaður talaði um í andsvari sínu. Þar er rætt um oddvitaræði og ýmislegt þess háttar. Það er hægt að hafa alls konar skoðanir á því hvað oddvitaræði er og hvað er ekki, en það er alveg ljóst af ræðum a.m.k. þriggja þingmanna sem talað hafa í þinginu um það mál, þ.e. hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, Sigurðar Inga Jóhannssonar og Atla Gíslasonar, að þetta frumvarp fer þvert gegn því og þeim tillögum og niðurstöðum sem þingmannanefndin kemst að þegar kemur að formfestu og oddvitaræði. Það hafa þessir þingmenn í það minnsta sagt í þessum ræðustól.