139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég hef spurt þingmenn út í nokkur atriði varðandi frumvarpið út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef varðandi einstakar greinar. Þær eru flestar á fyrstu blaðsíðu frumvarpsins þó svo að afgangurinn tengist því að einhverju leyti.

Ég vil þó taka fram enn og aftur að það eru ákveðnir kaflar og greinar í frumvarpinu sem eru mjög fín og mikilvægt að nái fram að ganga, svo sem varðandi siðferðileg viðmið og ýmislegt annað. Ég vil þó ræða það sem stendur í 2. gr. á fyrstu blaðsíðunni þar sem verið er að gera breytingu á gamla fyrirkomulaginu, þ.e. að inn í þingið komi frumvarp þar sem ráðuneytunum er skipt o.s.frv. Við þekkjum hvernig það er í lögunum í dag, og svo er sett reglugerð.

Þá erum við komin í 4. og 5. gr. sem tengjast reglugerðarsetningunni sem er sett eins og lögin eru í dag, um að stjórnarmálefni fari undir ráðuneyti eftir forsetaúrskurði. Í 5. gr. kemur fram að hægt sé að flytja stjórnarmálefni milli ráðuneyta og þá mun það ráðuneyti sem tekur við málinu klára það.

Ég velti fyrir mér: Er eðlilegt að forsætisráðherra hafi það vald, það er ekki hægt að lesa það öðruvísi, hvort sem það verður svo fært í gegn … (ÁI: … óbreytt.) Það er ekki óbreytt, hv. þingmaður, því að það þyrfti þá að vera inni setning um það sem fylgir lögum í dag ef það verður óbreytt. Er eðlilegt að ráðherra hafi slík tæki og völd til að færa málefni (Forseti hringir.) án þess að þess sé getið sérstaklega?