139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stangast á í huga mínum að ég vil að Alþingi komi að málum og sá stjórnarmeirihluti eða minni hluti sem styður ríkisstjórn, þá með hlutleysi þess sem styður minni hlutann, kvitti fyrir fjölda ráðherra og heiti ráðuneyta þannig að það sé í það minnsta sagt í 2. gr. að slíkt beri að samþykkja á þinginu.

Hins vegar finnst mér ekki skipta meginmáli, ef vilji er innan ríkisstjórnar til að færa verkefni á milli ráðuneyta, að það sé gert. Forsætisráðherra er verkstjóri ríkisstjórnarinnar og hefur alltaf verið. Þetta gæti verið til bóta. En ég geri ráð fyrir að það sem býr að baki þessari spurningu sé að Alþingi taki þátt í að samþykkja slík lög, að veita forsætisráðherra aukin völd til þess að hafa áhrif á hvernig málefnum er skipað innan ráðuneyta og hverra sé að ljúka málum ef hugsanlega kemur upp ágreiningur í ríkisstjórn um meðferð mála eða túlkun. Að því leyti væri því verið að færa ráðherra meira vald en ég held að við eigum ekki að gleyma því að hver svo sem gegnir hlutverki forsætisráðherra er hann æðsti yfirmaður ríkisstjórnarinnar og ber á henni ábyrgð, eins og sést (Forseti hringir.) á því sem nú er að gerast í íslensku samfélagi.