139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands ásamt einum þremur nefndarálitum. Það væri kannski við hæfi að byrja að ræða orðaskipti hv. þingmanna Gunnars Braga Sveinssonar og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, um4. gr. frumvarpsins sem fjallar um það hvaða stjórnarmálefni heyra undir viðkomandi ráðuneyti og hvar þau eiga að vera. Í síðustu línu þeirrar greinar stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að fela sama ráðherra að fara með fleiri en eitt ráðuneyti á hverjum tíma. Komi upp vafi eða ágreiningur um það undir hvaða ráðuneyti stjórnarmálefni heyrir sker forsætisráðherra úr.“

Ég hef velt því fyrir mér hvort það geti verið að við séum að setja hér lög og það sé það mikil lausung að menn hafi áhyggjur af því að með breytingunum geti ákveðin málefni fallið á milli skips og bryggju. Getur sú staða virkilega komið upp að einhver ákveðinn ráðherra telji að annar ráðherra muni fylgjast með og fjalla um ákveðinn málaflokk og síðan komi í ljós að þannig sé það ekki?

Það þarf kannski ekki að líta mjög langt aftur í tímann, ekki nema um þrjú ár tæplega, til þess að það komi berlega í ljós — það kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis — að menn töldu að aðrir væru að fylgjast með ákveðnum málum, ekki var nógu mikil samhæfing í því hvernig um þau mál var fjallað og hvernig fylgst var með, en slíkt ætti nú að vera alveg á hreinu.

Mig langar að auki, þar sem ég náði ekki að fara yfir allt í fyrri ræðu minni í nótt, að nefna 6. gr. Í 2. mgr. þeirrar greinar segir, með leyfi forseta:

„Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast til dæmis reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar eða ef sýnt þykir að reglugerð eða yfirlýsing geti haft á áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram fjárheimildir eða á efnahagsmál almennt.“

Þarna kemur fram hið huglæga mat sem ég velti mjög fyrir mér, þ.e. „mikilvæg stjórnarmálefni“. Nú er það eflaust mismunandi á milli einstaklinga hvað þeir telja mikilvæg stjórnarmálefni og þó að reglugerðir og yfirlýsingar séu nefndar sem dæmi þá er um að ræða ákveðið huglægt mat. Mér finnst að lögin þurfi að vera skýrari hvað þetta varðar.

Síðan kemur að því að fjalla eigi um þetta á ríkisstjórnarfundum. Mér finnst vanta inn í, og það hef ég gagnrýnt mjög oft í þessum ræðustól, að ekki sé talað um að ráðherrar eigi að kynna þetta fyrir hv. Alþingi. Þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram fjárheimildir eða á efnahagsmál almennt fyndist mér eðlilegra að hér stæði að kynna ætti það fyrir Alþingi. Það er mjög bagalegt að búa við það að hv. alþingismenn sjái oft og tíðum tilkynningar um það í fréttum hvað framkvæmdarvaldið ætlar að gera. Það er að mínu mati algerlega óþolandi þar sem fjárveitingavaldið er hjá Alþingi og síðan líta hæstv. ráðherrar þannig á að þeir geti lagt fram lokafjáraukalög á haustþingi þar sem öllu er sópað upp. Þar eru kannski breytingar upp á tugi milljarða, og það fær oft og tíðum enga umræðu. Það er mjög athyglisvert að þegar við ræðum stór fjárútlát, svo að skiptir milljörðum og tugum milljarða, er þingsalurinn yfirleitt tómur og afskaplega fáir sem taka þátt í umræðunni. Ég hef verið mjög hugsi yfir þessu frá því að ég kom inn á hið háa Alþingi.

Það væri líka gott að ræða það hver virðing framkvæmdarvaldsins er fyrir ákvörðunum Alþingis. Nú eru samþykkt fjárlög frá Alþingi, sem framkvæmdarvaldið á að fylgja eftir, og einstök ráðuneyti ná kannski ekki að fylgja þeim eftir. Það liggur til að mynda fyrir, hvað varðar einn þátt sem samþykktur var í fjárlögum 2011, að forsvarsmenn Sjúkratrygginga Íslands bentu okkur á það á fundum fjárlaganefndar að sú niðurskurðar- og hagræðingarkrafa sem gerð væri á því sviði mundi ekki ganga eftir nema Alþingi breytti lögum. Það hefur hins vegar ekki verið gert þannig að það var nánast vitað fyrir fram að við samþykkt fjárlaga á Alþingi fyrir árið 2011 mundu ákveðnir hlutir í fjárlögunum ekki ganga eftir. Vinnubrögðum af þessu tagi verður að breyta til að ná aga í ríkisfjármálum, en ugglaust væri hægt að ræða virðingarleysið fyrir fjárlögum í marga daga.

Af því að ég er farinn að nefna fjárlögin þá væri gott að rifja það upp að núna, í september 2011, er ekki enn búið að samþykkja ríkisreikning fyrir árið 2009. Þetta eru að mínu mati vinnubrögð sem geta ekki gengið lengur. Það eru algerlega óþolandi vinnubrögð og það þarf að fara vandlega og betur yfir þessa hluti að mínu mati.

Mig langar að víkja næst að 21. gr. sem fjallar um heimildir ráðherra til að flytja embættismenn á milli embætta innan Stjórnarráðsins. Þar kemur fram að hægt sé að flytja starfsmenn til innan Stjórnarráðsins með samþykki beggja viðkomandi ráðuneyta, ef færa á á milli ráðuneyta, og starfsmannsins sjálfs. Ég hefði talið heppilegt, við þessar breytingar á Stjórnarráðinu, að stofnuð yrði ein mannauðsskrifstofa fyrir Stjórnarráðið og starfsfólk yrði ráðið í Stjórnarráðsins en ekki í einstök ráðuneyti. Það hefði ég talið mun skynsamlegra að gera frekar en gera það eins og hér er talað um. Það segir sig sjálft að þá er miklu betra að færa fólk til á milli ráðuneyta ef upp kemur álag á ákveðnum stöðum. Það er mjög sérkennilegt að ekki skuli einfaldlega vera hægt að ráða fólk til starfa í Stjórnarráðið. Að mínu mati mundi starfsfólkið nýtast betur þannig og úr yrði jafnvel betri vinnustaður og fjölbreyttari vinnuaðstaða fyrir starfsfólk. Ég teldi skynsamlegt að gera þetta þannig. Það kom fram í svari hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í dag, þar sem ég fór í andsvar við hana, að þetta hefði verið rætt í hv. allsherjarnefnd en menn hefðu ekki komist mikið áfram með það mál, bæði vegna tímaskorts og annað. Þetta er vonandi eitt af þeim atriðum sem við munum skoða í framhaldinu þegar búið verður að samþykkja lög um Stjórnarráðið. Þá gætum við rætt þetta frekar á næstu mánuðum eða missirum þó svo æskilegra hefði verið að gera það um leið og verið er að breyta lögunum á þennan hátt.

Það kom fram í dag að sú breytingartillaga sem flutt er af meiri hluta allsherjarnefndar opnar á þann möguleika að hafa fleiri en einn ráðherra í hverju ráðuneyti. Ég nefni nýjustu ráðuneytin sem voru sameinuð, þ.e. annars vegar innanríkisráðuneytið, sem varð til við sameiningu samgöngu- og dómsmálaráðuneytis, og hins vegar velferðarráðuneytið, sem varð til við sameiningu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis. Í báðum tilfellum komu nýir ráðherrar sem höfðu ekki starfað í þeim ráðuneytum áður og hefði ég talið það góða hugmynd að hafa tvo ráðherra í þeim ráðuneytum.

Við sjáum hversu yfirgripsmiklir málaflokkar heyra undir þessi ráðuneyti. Velferðarráðuneytið er til að mynda með stóran hluta af heildarútgjöldum ríkisins. Ég tel að skynsamlegra sé að nálgast þetta á þann hátt frekar en vera að færa ráðuneytin á milli húsa. Ég þykist vita að það kosti gríðarlega mikla fjármuni að hafa þetta eins og við höfum haft það, ég hræðist það mjög. Ég hef ákveðna tilfinningu fyrir því að þær breytingar sem farið var í við sameiningu ráðuneytanna verði afskaplega dýrar. Á sama tíma og við stöndum í niðurskurði og aðhaldsaðgerðum, með miklum halla á ríkissjóði, er ófært að bruðla í þá veru sem þar er gert. Ef hæstv. ríkisstjórn tekur á hverjum tíma ákvörðun um að vilja minnka ráðuneytin eða stækka þau er skynsamlegra að gera það með þeim hætti sem hér er opnað á, það er nálgun sem við þekkjum kannski annars staðar frá.

Ef maður hugsar þetta mál aðeins lengra vakna aðrar spurningar. Ef ráðuneytin verða of stór og umfangsmikil, og of mikið vald færist á hendur eins ráðherra, mætti færa fyrir því rök að í því fælist ákveðið framsal valds frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins eða frá framkvæmdarvaldinu til embættismannavaldsins. Við vitum hvað gerist ef einn hæstv. ráðherra hefur of mörg verkefni á sinni könnu, þá færist sú vinna yfir til embættismanna í viðkomandi ráðuneyti og þeim eru þá falin frekari verkefni en þeir hafa verið að sýsla við áður. Það þýðir að þá er ráðherrann farinn að færa valdið til embættismannanna frá framkvæmdarvaldinu. Mér finnst þetta athyglisverð nálgun og þetta er eitthvað sem við ættum að geta þróað okkur í. Ég viðurkenni að ég sé í fljótu bragði ekki mikla hættu í sambandi við þetta mál en auðvitað mun þetta þróast eftir því hver tilhögunin verður.

Mig langar líka að ræða breytingartillögur frá meiri hluta allsherjarnefndar sem ég tel flestar vera til bóta. Ég tel að málið hafi skánað í meðförum allsherjarnefndar, því er ekki að leyna. Ég fagna þeirri breytingu sem gerð er á 1. gr. þar sem sagt er að ráðherrar starfi í umboði Alþingis. Þetta er ákveðin yfirlýsing sem mér finnst mjög mikilvægt að komi fram og virðingarvert og þakkarvert að það skuli koma frá hv. allsherjarnefnd. Ég staldra við þær breytingar sem lagðar eru til varðandi 6. gr., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Á ríkisstjórnarfundum skal skýra frá fundum þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess og þegar þeim sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar.“

Ég þykist átta mig á því hvers vegna þetta er sagt á þennan hátt. Það er vegna þess að við þekkjum það að upplýsingum var ekki komið nægilega vel á milli ráðherra. Það er væntanlega hugsunin á bak við þetta. Ég átta mig hins vegar ekki alveg á því hvernig þetta muni verða í framkvæmd. Munu allir hæstv. ráðherrar leggja fram langar skrár yfir öll mál í ráðuneytinu til að fría sig ábyrgð og tryggja að þeir hafi þá komið öllum upplýsingum til skila, því að það er, eins og við vitum, huglægt mat hvað eru mikilvægar upplýsingar. Eða mun þetta þróast í þá veru að það muni ná markmiðum sínum þegar fram líða stundir? Vissulega væntir maður þess að það gerist en þetta er eitt af því sem maður staldrar aðeins við, hvernig þetta muni ganga eftir. Auðvitað kemur gríðarlega mikið af málum til úrlausnar innan stjórnsýslunnar, en ég þykist átta mig á því hvers vegna þetta ákvæði er sett inn.

Síðan kemur inn breyting á 7. gr. þar sem verið er að tala um að allir ríkisstjórnarfundir skuli hljóðritaðir og afrit geymd í vörslu Þjóðskjalasafnsins, að hljóðritanir skuli gerðar opinberar að 30 árum liðnum. Ég geri enga athugasemdir við það hvort miðað er við 30 ár, 20 ár, 40 ár eða 15 ár, ég er ekki að velta því fyrir mér. En ég hef verið að velta því fyrir mér hvort þetta muni breyta ríkisstjórnarfundunum í þá veru að um verði að ræða stutta fundi og menn verði þá búnir að útkljá málin í hliðarherbergjum. Það mun væntanlega þróast í þá veru, það gæti gerst. En þá þarf líka að spyrja og vera sanngjarn: Hverju mundi það breyta ef þeir eru hvort sem er lokaðir? Það er spurning sem menn verða að svara við meðferð málsins.

Ég vil nota afganginn af tíma mínum, sem er óðum að styttast, í 22. gr., þar sem verið er að tala um aðstoðarmenn ráðherra. Ég tel að það sé til mikilla bóta að menn hafi það alveg fastskrifað hvernig Stjórnarráðið er og hvernig hæstv. ráðherrum er heimilt að ráða til sín aðstoðarmenn. Það er líka mjög mikilvægt, sem kemur hér fram, að aðstoðarmennirnir koma og fara með ráðherrunum. Það er ekki æskilegt að við sitjum uppi með fólk í stjórnsýslunni sem ráðið hefur verið pólitískt. Þegar nýir ráðherrar koma þá er þetta fólk sett til hliðar í einhver sérverkefni og hefur kannski ekki mikið fyrir stafni. Það eru hlutir sem við verðum að breyta. En þá þurfum við líka að ræða það — ég velti því upp í ræðu minni í gærkvöldi og fékk svo sem engin viðbrögð við því — hver breytingin er í raun og veru.

Nú veit ég til að mynda að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er búinn að ráða sér upplýsingafulltrúa sem var ekki í ráðuneytinu. Flokkast það undir aðstoðarmenn? Mér finnst að setja þurfi skýrari reglur um það hvað eru pólitískir aðstoðarmenn og hvað ekki. Það er búið að ráða inn í það ráðuneyti verktaka eða útgerðarfélag til að sinna ákveðnum ráðgjafarstörfum. Það mundi þá flokkast undir aðstoðarmenn. Og ég tek undir það sem kemur fram í breytingartillögunum að mikilvægt sé að menn séu ekki að ráða sérfræðing, það flokkist þá bara sem aðstoðarmenn þannig að sérfræðingarnir sitji ekki eftir. Þegar ég var að skoða þessa hluti um daginn í einu ráðuneyti tók ég eftir því að einn einstaklingur, hafi ég tekið rétt eftir, sem áður starfaði sem aðstoðarmaður var núna sérfræðingur. Það er mjög mikilvægt að farið sé yfir þetta og tekið á þessu og ég held að ekki séu miklar deilur um þessa grein.

Ég vil ljúka máli mínu, virðulegi forseti, á að segja að í meðförum hv. allsherjarnefndar hefur málið verið bætt til muna, það standa athugasemdir við margar greinar, kannski mismiklar. Hv. þingmenn og þar á meðal ég hafa haft miklar áhyggjur af 2. gr., hvernig hún er sett fram. En ég rakst hér frammi fyrir nokkru á breytingartillögu sem flutt er af hv. þingmönnum Eygló Harðardóttur, Árna Þór Sigurðssyni, Margréti Tryggvadóttur og Siv Friðleifsdóttur. Það finnst mér ákveðin málamiðlun. Við eigum að nota tímann og kraftana til að ræða hvort við getum náð saman um hvernig við afgreiðum þetta mál. Ríkisstjórnir koma og fara og þegar við afgreiðum mál um Stjórnarráðið er mikilvægt að við reynum að gera það í eins mikilli sátt og mögulegt er.