139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:05]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þótti þetta athyglisverð ræða og fyrir utan beinar spurningar um minni háttar atriði er ég að mörgu leyti sammála hv. þingmanni, t.d. því sem hann sagði um aðstoðarmennina og ýmislegt annað sem var að mínu viti gáfulega mælt. Að lokum talaði hann um hugmynd að þingsályktunartillögu sem mun vera komin fram — ég hef ekki séð tillögutextann sjálfan en las um þetta á netinu — við 2. gr., sem snýst semsé um, eins og mönnum mun vera kunnugt núna, að færa þessa ráðuneytaskiptingu til norræns háttar. Það er eðlilegt að hin norræna velferðarstjórn og liðsmenn hennar á þingi standi fyrir því.

Hvað getur hv. þingmaður ímyndað sér um þessa málamiðlunartillögu um þingsályktunarleiðina? Telur hann að hún sé fullnægjandi eða telur hann að hér þurfi meira til og með hvaða hætti getur hún orðið þannig að hann geti samþykkt hana og hleypt málinu áfram?