139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hans. Ekki fyrir svo löngu síðan var gefin út skýrsla svokallaðrar þingmannanefndar sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kemur ýmislegt forvitnilegt fram, mikil gagnrýni á hvernig haldið var á málum hér áður fyrr, hvað megi bæta og þess háttar. Í niðurstöðum eða í kaflanum um stjórnsýslu kemur fram að það vanti meiri formfestu í stjórnarathafnir. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að það frumvarp sem við erum með til umræðu, þar sem í raun er verið að slaka á formfestu, létta á og gefa eftir það hlutverk sem Alþingi hefur haft þegar kemur að þessu, samræmist þeirri ábendingu sem kom fram í skýrslu þingmannanefndarinnar.