139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga þær tillögur sem hafa komið fram, t.d. frá þingmannanefndinni, þar sem er ekki svo langt liðið síðan. Samt virðist manni eins og reynt sé annaðhvort að horfa fram hjá þeim eða þær taldar þess eðlis að ekki sé ástæða til þess að bregðast við þeim öllum. Sumu er vitanlega tekið mark á.

Í ræðu sem hv. þm. Atli Gíslason, formaður umræddrar þingmannanefndar, flutti hér við 1. umr. þessa máls sagði hann, með leyfi forseta:

„Með því að færa forsætisráðherra á hverjum tíma vald til að flytja stjórnarmálefni á milli ráðherra er verið að auka foringjaræði, sem kallað er oddvitaræði í skýrslu rannsóknarnefndar. Ekki er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að slíkar ákvarðanir um tilflutninga, að ég best sé, verði teknar upp á ríkisstjórnarfundum.“

Tekur hv. þingmaður undir þessi orð formanns nefndarinnar?