139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Frá því að ég og hv. þingmaður tókum sæti á Alþingi hefur löggjafinn í það minnsta einu sinni sýnt vilja til þess að hafa áhrif á það með hvaða hætti skipan Stjórnarráðsins er. Það sýndi löggjafinn þegar tekið var út ákvæði þess efnis að stofna atvinnuvegaráðuneyti. Fram kom frumvarp sem fól það í sér að til yrði atvinnuvegaráðuneyti. Alþingi tók það hins vegar út með breytingartillögu. Það sýnir í rauninni að löggjafinn vill að þingið hafi áhrif með þeim hætti. Þessi breytingartillaga felur í sér að þau áhrif verði afnumin.

Í ljósi þess í hvaða stöðu málið er núna, hvernig telur hv. þingmaður heppilegast að ljúka því? Það eru allir komnir ofan í skotgrafir, hæstv. forsætisráðherra er komin ofan í skotgröf út af málinu. Væri ekki eðlilegast að skipa einhvers konar nefnd eða láta allsherjarnefnd (Forseti hringir.) vinna þetta áfram, fá nýtt frumvarp? Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér í þessu efni?