139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með lögum um Stjórnarráðið frá 1969 var gamla atvinnumálaráðuneytinu skipt upp. Nú eru til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti. Þó að ekki liggi fyrir að þessi ráðuneyti verði sameinuð aftur í atvinnuvegaráðuneyti samkvæmt því frumvarpi sem hér er til umræðu liggur hins vegar fyrir vilji þeirra sem fyrir þessu máli tala eða hafa lagt það fram hvað það varðar og birtist í því sem nefnt var áðan, í frumvarpi um stofnun slíks ráðuneytis. Það má því gera ráð fyrir að það svigrúm sem hér er verið að biðja um verði nýtt til þess að stofna nýtt atvinnuvegaráðuneyti, sameina ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar og iðnaðar í eitt.

Hver er afstaða þingmannsins til slíkrar sameiningar? Telur hann tímabært að sameina allar þessar greinar undir eitt ráðuneyti?