139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við höldum áfram umræðu um þrjú nefndarálit sem koma frá hv. allsherjarnefnd sem fjallaði um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands um nokkurn tíma. Umræðan hefur verið mjög góð, með nokkrum undantekningum þó.

Mér finnst dálítið miður þegar þingmenn tala niður til annarra hv. þingmanna eins og þeir viti allt og hinir séu dálítið heimskir. Það má vel vera að ég sé heimskur en menn þurfa ekki að segja mér það beint, það gæti sært mig. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, við vitum hver þau eru, þannig að ég ætla ekkert að ýfa sár eða kalla á andsvör.

Það sem mig langar til að ræða rétt áður en ég sný mér að þeirri skýrslu sem gerð hefur verið er að ég sé ekkert í frumvarpinu sem hindrar að ráðherra Íslands verði einn. Hann gæti haft fimm aðstoðarráðherra, þeir geta líka verið tveir, frumvarpið býður upp á mjög mikinn sveigjanleika. Ég vildi að menn hefðu hugsað þá hugsun til enda að það eigi bara að vera einn ráðherra yfir öllu Stjórnarráðinu á Íslandi. Eftir breytinguna sem gerð hefur verið geta aðstoðarmennirnir verið mjög margir, 30 þess vegna. Menn þurfa líka að hafa það í huga.

Sú breytingartillaga sem komið hefur fram og ég greip með mér, er athyglisverð. Hún lagar reyndar bara einn þátt af tveimur — það er ekki bara galli við 2. gr. þar sem forsætisráðherra getur stillt upp ríkisstjórn eins og honum dettur í hug, sem getur svo sem verið ágætt, en það má ekki vera algerlega formlaust eins og gert er ráð fyrir. Breytingartillagan gengur út á málið að verði rætt sem þingsályktunartillaga í einni umræðu á Alþingi.

Þar stendur: „… sem rædd skal og afgreidd við eina umræðu …“

Ég þyrfti eiginlega að fá betri upplýsingar um það. Hvað þýðir að hún sé afgreidd? Eru þá greidd um hana atkvæði? Gæti Alþingi fellt þá tillögu? Mér finnst að það þurfi að koma fram að ef sú tillaga verður felld verði engin breyting.

Það er fleira sem er að frumvarpinu. Ég er búinn að nefna 4. gr. sérstaklega þar sem hægt er að flytja málefni, eins og stendur hér, með leyfi frú forseta, í 4. gr.:

„Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum forsetaúrskurðar, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveðinn er upp samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Forsætisráðherra kemur sem sagt til Bessastaða með tillögu um hvaða stjórnarmálefni beri undir ráðuneytið — heyri undir ráðuneytið, segir málvitund mín segja mér. Og af því að samkvæmt breytingartillögunum er gert ráð fyrir málnefnd í ráðuneytunum finnst mér alveg sjálfsagt að frumvarp sé á því formi að menn geti nokkurn veginn skilið það.

1. mgr. 4. gr. segir að forsætisráðherra geti viðstöðulaust breytt því hvaða málefni heyra undir hvaða ráðuneyti eða ráðherra. Þar með geta gerst mjög undarlegir hlutir og ég bið hv. þingmenn að taka eftir því sem ég segi.

Gefum okkur að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi að fjalla um Evrópusambandið auk annarra starfa í ráðuneytinu. Þá fer forsætisráðherra suður á Bessastaði, drekkur kaffi og borðar kleinur með forsetanum og stingur upp á því að málefni sem snerta aðkomu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að Evrópusambandinu verði tekin frá honum og flutt til annars ráðherra, t.d. forsætisráðherra sjálfs. Svo afgreiðir hann það mál samkvæmt 5. gr., en hún er líka mjög lúmsk. Samkvæmt 5. gr. á nýi ráðherrann að taka ákvarðanir um þetta málefni og taka við því. Það sem byrjað var á í fyrra ráðuneytinu á þá að afgreiða í því síðara.

Það þýðir að hann getur tekið málefnið með litlu pennastriki frá ráðherranum sem fer með málefni sjávarútvegs og landbúnaðar gagnvart Evrópusambandinu og þar með er það farið. Því þarf að breyta líka. Ég sætti mig ekki við slík tilviljunar- og tilskipunarstjórnamál, það kemur bara ekki til mála. Því þarf líka að breyta, það þarf líka að samþykkja með þingsályktun á Alþingi.

Við getum nefnt önnur dæmi. Hér kom kínverskur fjárfestir sem vill kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Það heyrir undir innanríkisráðherra og innanríkisráðherra tjáði umheiminum að hann væri ekkert sérstaklega hrifinn af því. Nú gæti hæstv. forsætisráðherra farið suður á Bessastaði og fengið sér kaffi og kleinur (Gripið fram í: Pönnukökur.) og pönnukökur — já, ég er ekki alveg með þetta á hreinu, (MÁ: Með rjóma.) en ég er með alla stjórnsýsluna á hreinu — og ákveðið að málefni útlendinga sem vilja kaupa jarðir heyri undir annað ráðuneyti, t.d. forsætisráðuneytið eða iðnaðarráðuneytið, af því að forsætisráðherra veit að iðnaðarráðherra er mjög áfram um að leyfa þessa fjárfestingu. Ég ætla ekki að taka afstöðu til fjárfestingarinnar en ég tek dæmi um hvernig þetta gæti orðið með svona gerræðislegri tilskipanastjórnsýslu og mér finnst það bara ekki hægt.

Ég vildi því gjarnan að breytingartillagan yrði víkkuð út þannig að hún næði líka til 4. gr. og menn ættu líka að skoða mjög nákvæmlega hvernig 5. gr. vinnur með 4. gr. Allt er þetta sett upp þannig að forsætisráðherra geti stjórnað einn.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði að verið væri að leggja forsætisráðherra í einelti með því að tala um einræðistilburði — ég held að ég hafi nefnt það orð, einræðistilburði. Mér finnst 4. gr. í samspili við 5. gr. segja mér að það sé þannig að forsætisráðherra vilji geta tekið á öllum málum sem einhver ágreiningur kemur upp um í ríkisstjórninni. Þá vill hann geta tekið málefnið til sín og flutt það annaðhvort til sjálfs sín og tekið ákvörðun um það eða flutt það inn í annað ráðuneyti sem hann veit að er hlynnt málefninu.

Ég veit ekki hvernig það fer saman við hugmyndir manna um hópefli og að ríkisstjórnin vinni saman. Ég held að það sé ekki gott og ég mundi vilja að tillagan sem flutt er af hv. þingmönnum Eygló Harðardóttur, Árna Þór Sigurðssyni, Margréti Tryggvadóttur og Siv Friðleifsdóttur verði víkkuð út til að ná líka yfir það. Það er greinilegt að flutningsmenn hafa ekki áttað sig á þeim möguleika heldur hafa þeir eingöngu litið til þess að hæstv. forsætisráðherra — það er reyndar bara forsætisráðherra, ekkert hæstvirtur því að hér er um að ræða forsætisráðherra allrar framtíðar, ég veit ekki hverjir þeir eru — geti ákveðið skiptingu ráðuneytanna með lítilli fyrirhöfn og breytingu á þeim.

Ég undirstrika enn að mér finnst frumvarpið eiga fullan rétt á sér og það er margt gott í því þó að ég bendi á veilurnar, en menn hafa sagt að við séum á móti því.

Ég ætla rétt aðeins að koma inn á pólitísku aðstoðarmennina vegna þess að þeir geta boðið heim spillingu. Ég er ekki að segja að það muni verða en það getur gerst. Ég býð mig e.t.v. fram í prófkjöri, ég þarf aðstoðarmann sem vinnur mikið með mér og þarf borga honum lítil laun af því að kosningabaráttan má ekki kosta mikið. Síðan segi ég við hann: Heyrðu, ef ég skyldi nú verða ráðherra skal ég ráða þig sem aðstoðarmann. Þá geri ég að sjálfsögðu engar kröfur um menntun eða reynslu eða nokkurn skapaðan hlut. Slík spillingartilhneiging er fyrir hendi, fyrir utan það að menn geta hreinlega ráðið ættingja og vini eða flokksgæðinga sem aðstoðarmenn. Það er dálítið athyglisvert að það fólk sem talar mest um spillingu skuli bjóða upp á slíkt í þessu frumvarpi.

Hvað erum við eiginlega að ræða um þegar við tölum um Stjórnarráðið, frú forseti? Við erum að ræða um stjórnunarstíl. Hvernig getur stjórnunarstíllinn verið? Ég hef margoft gagnrýnt það og oft fundist að það séu í rauninni 10–12 mismunandi ríkisstjórnir í landinu þannig að hver ráðherra í rauninni geri nokkurn veginn það sem honum dettur í hug og það sé lítil sem engin samvinna milli ráðherra. Þannig blasir það við mér og mér finnst það slæmt vegna þess að slík stjórnun er ekki mjög markviss, hún stefnir ekki að einu marki, hún stefnir hugsanlega í 12 áttir ef það eru 12 ráðherrar. Ég hef hreinlega upplifað að það er eins og ríkisstjórnirnar séu að fara í 12 eða 10 mismunandi áttir. Það bjóst ég við að menn mundu laga í þessu frumvarpi en það var ekki gert. Eins og frumvarpið er upp byggt er það einn sem ræður, ekki hópurinn sem slíkur, ekki ráðherrarnir sem slíkir sem þó geta haft mjög víðfeðma og mikla þekkingu og mörg sjónarmið. Það er svo verðmætt í stjórnun að öll sjónarmið komist að. Það er ekki þar með sagt að menn eigi að taka tillit til allra sjónarmiða, það er ekki hægt, en hópurinn sem slíkur getur þá vegið og metið hvort þetta sjónarmið sé betra en hitt og valið úr það besta.

Þess vegna finnst mér sú stjórnun sem frumvarpið býr til verða hræðslustjórnun eins ráðherra. Vegna ofuráherslu á forsætisráðherrann, eina persónu sem getur tekið málefni frá og gert allar kúnstir og allir ráðherrarnir eru logandi hræddir við hann vegna þess að hann getur sagt þeim upp hvenær sem er og þeir vita af því, verður það hræðslustjórnun einnar manneskju. Það finnst mér hreint út sagt ekki gott. Menn hafa ekki hugsað það alveg til enda.

Menn eiga að reyna að fá alla ráðherrana að borðinu til að stjórna sameiginlega og finna út sameiginlega stefnu. Þá þarf að byggja þetta öðruvísi upp en hér er gert. Ég er ekki með breytingartillögu á reiðum höndum sem nær fram því sem kallað er „teamwork“ á ensku, þ.e. samstarfsstjórnun. Skýrsla frá desember 2010 heitir Samhent stjórnsýsla, sem ég hugsa að sé þýðingin á „teamwork“, þ.e. að menn vinni saman.

Þetta frumvarp nær því bara alls ekki. Það skiptir þó verulega miklu máli, þetta er stórt mál og það skiptir miklu máli fyrir íslenska þjóð að stjórnsýslan sé góð. Hins vegar liggur ekkert voða mikið á þessu. Þess vegna mundi ég vilja að menn gæfu sér tvo, þrjá mánuði í nefndinni til að fara í gegnum málið og reyna að finna út hvernig fá má fram raunverulega samhenta stjórnsýslu, samhenta stjórnun, þannig að það myndist ein stefna fyrir Ísland sem öll ríkisstjórnin stendur að.

Nú erum við alveg greinilega með tvær stefnur, aðra til Evrópusambandsins og hina — ég veit ekki hvert hún ætlar, í einhverja skattlagningu, fátækt og kyrrstöðu. Reyndar ganga báðar út á skattlagningu og kyrrstöðu en önnur ætlar að finna fyrirheitna landið í evrulandinu og stefnir þangað ótrauð, óháð því hvað gerist í því ágæta landi. Hin er stefnir eitthvert — ja, ég ætla ekki að segja neitt meira um það.

Í skýrslunni Samhent stjórnsýsla sem kom út í desember 2010, kemur afskaplega margt fróðlegt fram. Það er mjög athyglisvert og skemmtilegt að lesa um söguna en tími minn hleypur frá mér þannig að ég get ekki komið inn á það. Ég ætlaði nefnilega að ræða á síðustu mínútum ræðutíma míns — hugsanlega þarf ég að fá lengri tíma — um veikleika Alþingis, í hverju veikleikar Alþingis liggja. Frá því að ég kom inn á þing hef ég tekið eftir því að nánast öll frumvörp sem Alþingi samþykkir sem lög eru samin einhvers staðar annars staðar en á Alþingi. Þau eru samin í ráðuneytunum, jafnvel af því fólki sem framkvæmir lögin. Það er stórhættulegt að starfsmaður Samkeppnisstofnunar semji lögin sem hann á að starfa eftir og hann smíðar e.t.v. einhver vopn inn í lögin sem nýtast honum í baráttu við borgarana og gera líf hans þægilegra. Það sama á við um skattinn o.s.frv. Sérfræðiþekkingin liggur þarna og það eru þessir aðilar sem semja meira og minna öll lög í landinu. Það er hættulegt.

Í eina tíð var Alþingi alla daga að ráðskast í framkvæmdum, byggja torfhús og rækta fíkniefnahunda og alls konar brandara. Alþingi fór inn í framkvæmdarvaldið og hver ber þá ábyrgð á þeim framkvæmdum? Nú er búið að taka það að einhverju leyti í burtu og þá stendur eftir hver semur frumvörpin. Ég mundi vilja hafa það þannig, og ég hef nefnt það áður, að nefndir þingsins semji frumvörp. Þá segja menn: Nefndirnar hafa ekki mannskap til þess, allt fólkið er í ráðuneytunum.

Við erum með fjárveitingavaldið. Við flytjum bara fólkið yfir til Alþingis og setjum á fót lagaskrifstofu Alþingis, nefndasvið eða annað, mér er alveg sama hvað við köllum það. Fólkið sem vinnur í ráðuneytunum við að semja frumvörpin kemur í Alþingi og semur frumvörp undir ritstjórn þingmanna, þ.e. viðkomandi nefnda. Þá gerist það þannig samkvæmt hugmynd minni að ráðuneyti, félagasamtök, fyrirtæki, einstaklingar og yfirleitt allir geta snúið sér til nefndarinnar og óskað eftir því að hún breyti einhverju ákvæði í lögum eða semji nýtt lagafrumvarp. Það gæti ráðuneytið gert líka. Síðan tekur nefndin ákvörðun um hvort við þeirri bón verði orðið, hvort semja eigi viðkomandi lagafrumvarp eða breytingartillögu. Ef nefndin er sammála um það setur hún vinnsluna í gang og fer að semja viðkomandi frumvarp.

Ég ætla ekki að lýsa því hvað slík frumvörp mundu fá allt aðra vinnslu á Alþingi vegna þess að þá væri hópur af alþingismönnum sem vissi nákvæmlega um hvað málið fjallaði og hverju þeir vildu ná fram með viðkomandi frumvarpi. Svo mætti senda frumvarpið til umsagnar til ráðuneytisins og annarra aðila til að athuga hvernig það frumvarp væri í framkvæmd.

Nú er sú undarlega staða, frú forseti, að þingmenn sitja lon og don í nefndum í gífurlega mikilli vinnu við að spá í og athuga hvernig gengur að framkvæma lög sem framkvæmdarvaldið hefur samið. Það er alveg með ólíkindum að efnahags- og skattanefnd sitji við það alla daga að kanna hvernig skattalög virka sem framkvæmdarvaldið og meira að segja skattstjórarnir sjálfir hafa samið og spyrja alls konar aðila úti í bæ. Ég mundi vilja snúa því við. Það mundi styrkja Alþingi, vegna þess að sá sem semur frumvarp upphaflega ræður mestu um hvernig það lítur út endanlega. Hann setur það upp, hann setur inn ákvæði og allir aðrir sem koma að frumvarpinu, ráðuneytið og ráðherrann, ríkisstjórnin, stjórnarflokkarnir og svo viðkomandi nefnd á Alþingi, þurfa að rökstyðja breytingar á frumvarpinu sem sá sem samdi það þarf ekki að gera. Hann getur laumað inn gildrum sem enginn sér í gegnum af því að hann er sérfræðingurinn.

Einhver starfsmaður hjá Samkeppnisstofnun veit náttúrlega miklu meira um samkeppnislög en ráðherra, eða jafnvel ráðuneytið, ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir. Maður hefur líka verið niðurlægður þannig á Alþingi að þegar ég var í stjórnarflokki fengum við kannski tvö, þrjú kíló af frumvörpum til að afgreiða síðasta daginn fyrir 1. apríl. Það er gjörsamlega útilokað að lesa allan þann bunka, hvað þá að átta sig á því hvernig það virkar þegar það fer í framkvæmd eða hvernig við breytum þjóðfélaginu með því.

Það held ég að sé aðalmeinið og veikleiki Alþingis og því verðum við að breyta. Menn hafa sagt að þetta sé svona alls staðar úti í heimi, en það er ekkert betra fyrir það. Því verðum við að breyta og ég vil að Alþingi taki að sér að semja og ritstýra miklu meira frumvörpum sem samþykkt verða sem lög. Þá held ég að vinnslan verði miklu betri og það merkilega er, frú forseti, að við erum jú kjörin til þess. Við erum kjörin á löggjafarsamkunduna af almenningi í landinu en ekki ráðuneytismennirnir.