139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi um að Alþingi hafi verið gert að skerða fjárlög. Það vill svo til, frú forseti, að það er Alþingi sem setur fjárlögin. (Gripið fram í.) Já, en alveg hárrétt samt, þetta orðalag var nefnilega hárrétt vegna þess að framkvæmdarvaldið skipaði Alþingi að skerða fjárlög Alþingis. Ég hef lagt til að Alþingi hafi sérfjárlög, það væru sérstök fjárlög fyrir Alþingi sem alþingismenn standi keikir að gagnvart kjósendum sínum og fari á fjögurra ára fresti og svari fyrir. Menn gætu stóraukið og flutt lagasmiði úr ráðuneytunum til Alþingis og aukið fjárveitingar til Alþingis og minnkað við ráðuneytin sem því nemur.

Hverju þarf að breyta? Eiginlega engu. Það þarf engu að breyta, frú forseti, nema venjum og vinnslu. Á hverju hausti koma ráðherrar yfirleitt til viðkomandi nefndar og kynna þau frumvörp sem þeir ætla að flytja. Maður getur litið á það sem beiðni og síðan byrjar nefndin bara að semja þau frumvörp. (Gripið fram í.) Það er engu öðru sem þarf að breyta.

Varðandi seinni spurninguna. Ég tel að verið sé að auka formfestuna í frumvarpinu, hina sýnilegu, en ósýnilega formfestu í 2., 4. og 5. gr. með hinni tilskipanakenndu uppbyggingu á stjórnsýslunni, að forsætisráðherra geti farið til Bessastaða og breytt fjölda ráðherra og sagt ráðherrum upp og allt slíkt án nokkurrar formfestu. Hann getur meira að segja kippt til sín verkefnum frá einum ráðherra og sett til annars án nokkurrar formfestu. Þetta finnst mér vera mjög slakt stjórnkerfi og lítil ábyrgð. Hver ber eiginlega ábyrgð í slíku annar en forsætisráðherrann? Allir hinir ráðherrarnir eru meira og minna ábyrgðarlausir. Og það er eitthvað sem ég vil ekki sjá.