139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nefnilega hárrétt hjá hv. þingmanni að til þess að ná fram breytingum á Stjórnarráðinu eða þeim breytingum sem menn vilja þarf traustan meiri hluta á Alþingi. Það virðist vera að ríkisstjórnin hafi hann hreinlega ekki nema í vissum málum. Þess vegna er þetta frumvarp hugsanlega komið fram, að það sé þá hægt að fara fram hjá því þannig að hægt sé að gera ráðstafanir í Stjórnarráðinu sem ekki er meiri hluti fyrir á Alþingi. Þá erum við náttúrlega komin út á mjög hættulega og hála braut hvað varðar lýðræðið.

Í fyrri ræðu minni í kvöld mátaði ég frumvarpið við sterka stjórnmálamenn. Á Íslandi hafa verið sterkir stjórnmálamenn og í hinni frægu skýrslu var einmitt sett út á foringjaræði. Ég vil að menn setjist nú niður hver og einn og prófi að líta á fyrstu fjórar greinarnar með einhvern sterkan leiðtoga inni í þessu. Ég leyfði mér að nefna Davíð Oddsson, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra. Hvernig mundi það líta út ef hann hefði haft þessar heimildir sem hér er um að ræða? (Gripið fram í: Hann tók …) Það er nefnilega spurningin, sem hér kemur fram í frammíkalli, hv. þingmaður segir að hann hafi tekið þær en hann hafði ekki lagastoð á bak við þær.

Núna kemur lagastoð á bak við það. (Gripið fram í.) Ég mundi ráðleggja öllum þingmönnum að máta þetta við sterka stjórnmálamenn sem fram kæmu hugsanlega í framtíðinni vegna þess að núverandi hæstv. ríkisstjórn mun ekki sitja að eilífu, það er ég nærri viss um.