139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var að endað á því að tala um skynsamlegar breytingar. Ég held einmitt að það sé kannski gallinn við þetta að mörgum okkar finnst þetta ekki skynsamlegar breytingar sem verið er að gera hér.

Það sem ég ætlaði að koma inn á í andsvarinu er tvennt. Ég ætla að byrja á að tala um sáttina sem var nefnd og síðan um einstakar greinar. Vinnulagið sem haft var við þingskapalögin var mjög gott. Þar lögðu menn sig fram við að ná sátt um þau. Það kann vel að vera að vinnulagið við þetta mál hafi verið með hefðbundnum hætti í nefndinni, eflaust er ekkert út á það að setja, en þegar um svona umdeilt mál er að ræða og viðkvæmt að mörgu leyti þarf að leggja sig meira fram. Hitt er líka, frú forseti, að það gengur ekki að mínu viti að vera hugsanlega að hræra í og breyta þessum lögum eftir hverjar kosningar.