139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að heyra afstöðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur til stöðu íslenskra fyrirtækja og krónunnar.

Kæri þingheimur. Gaman væri að velta fyrir sér hvað eftirtalin fyrirtæki eiga sameiginlegt: Bakkavör, Actavis, Marel, Alcoa, Samherji, Norðurál, Össur, Landsvirkjun, HB Grandi, Síldarvinnslan, Íshúsfélagið, Þorbjörn, Vinnslustöðin, Hampiðjan, CCP, Rammi, Vísir, Eskja, Bláa lónið, Nikita, Latibær, Íslensk erfðagreining og svo Icelandair frá og með næstu áramótum.

Öll þessi fyrirtæki og fleiri til, þ.e. 38 fyrirtæki af 300 stærstu fyrirtækjum landsins, eiga það sameiginlegt að hafa horfið úr hinu íslenska krónuhagkerfi og gera nú upp efnahagsreikninga sína í erlendri mynt. Þau hafa horfið úr því sveiflukennda óvissuástandi og hinum háu vöxtum sem krónan býður upp á.

Það er merkilegt við þennan lista, frú forseti, að á honum eru 11 sjávarútvegsfyrirtæki með yfir 42% af úthlutuðu aflamarki en samtök þessara fyrirtækja eru í fararbroddi í baráttunni gegn því að almenningur fái notið sömu kjara og þau gera. Útgerðarmennirnir gera upp í evrum. Þeir njóta lægri vaxta og minni sveiflna en standa svo í baráttunni gegn því að starfsmenn þeirra, fiskvinnslufólk og sjómenn, njóti sömu kjara í sínum rekstri, heimilisrekstri.

Frú forseti. Þau fyrirtæki sem mynda helstu stoðirnar í útflutningi okkar og færa verðmæti inn í landið í sjávarútvegi, orkufrekum iðnaði, ferðaþjónustu og hugverkaiðnaði, okkar verðmætustu fyrirtæki, hafa gefist upp á krónunni og eru farin annað. Um leið aukast líkurnar á því að þau flytjist alfarið búferlum eða hagi uppbyggingu rekstrar síns erlendis. Stóru verðmætu fyrirtækin eiga þess kost að fara út úr krónunni og það hafa mörg þeirra gert. Þau geta fengið lán á skaplegum vöxtum, þau vilja losna við sveiflur og óöryggi. Almenningur hefur ekki þennan valkost og situr eftir í óvissunni með háan kostnað við kaup á húsnæði eða önnur kaup. Fyrirtækin eru farin en eftir situr almenningur.