139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Allt frá því að ríki og sveitarfélög seldu yfirráð sín yfir Hitaveitu Suðurnesja sem svo hét, nú HS Orka, og misstu þannig forræði yfir fyrirætlunum félagsins á raforkusölu sinni til einstakra verkefna hefur deilan um samninga HS Orku og Norðuráls verið í hörðum hnút. Ekki tókst í sumar að leysa hana með samningum og nú er hún því fyrir gerðardómi í Svíþjóð sem frestaði ákvörðun sinni frá júlí þangað til í september, heimild sem hann hafði en getur ekki frestað lengur. Því mun gerðardómur væntanlega ganga í máli HS Orku og Norðuráls á næstu dögum. Þá skýrist vonandi og væntanlega hvernig fer með þá orku sem HS Orka var búin að heita Norðuráli til fyrsta áfanga álversins í Helguvík og deilan þannig verið leyst.

Því vildi ég beina þeirri spurningu til hv. formanns iðnaðarnefndar hvort nefndin hafi einhverjar upplýsingar um það hversu afdráttarlaus búist er við að dómurinn verði. Munum við sjá með gerðardómnum hoggið á Helguvíkurhnútinn og munu menn vita hvernig þetta verkefni stendur, hver framtíð þess verður og hvernig verður öðrum fyrirætlunum HS Orku um raforkusölu háttað? Það er mjög mikilvægt að dómurinn verði endapunkturinn á þessari langvinnu og hörðu deilu, en þegar sveitarfélögin og ríkið seldu félagið misstu þau yfirráðin yfir einstökum fyrirætlunum. Deilan hefur komið í veg fyrir mikilvæga orkunýtingu á Reykjanesinu og suðvesturhorninu, hvort sem litið er til álversins í Helguvík eða annarra stórra framkvæmda. Meðan hún er í hnút er ekki ráðist í önnur verkefni sem gætu komið inn í staðinn fyrir álver ef af því yrði ekki. Vonir standa að sjálfsögðu til að af því verði. Mun það væntanlega skýrast með gerðardómi og því vildi ég spyrja hv. formann iðnaðarnefndar um mat hans á stöðu (Forseti hringir.) þessa samnings.