139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

uppgjör fyrirtækja í erlendri mynt -- Kvikmyndaskóli Íslands -- HS Orka ofl.

[10:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason veltir upp deilu forsetans við ríkisstjórnina á bloggsíðu sinni í dag á smugan.is. Þar kemur fram að forseti Íslands ætli ekki að sitja undir aðför fjármálaráðherra að sér og veltir þingmaðurinn upp nokkrum spurningum í þessu sambandi, m.a. hvort forseti muni krefjast afsagnar fjármálaráðherra. Hann veltir fyrir sér hvort forseti muni svipta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur umboði til áframhaldandi starfa. Mun forsetinn rjúfa þing og boða til kosninga eða fela stjórnarandstöðunni að mynda nýja ríkisstjórn? Svo veltir þingmaðurinn því fyrir sér hvort forsetinn muni skipa utanþingsstjórn.

Þarna er hv. þm. Björn Valur Gíslason að gefa í skyn að forseti Íslands ætli í fyrsta sinn í lýðveldissögunni að grípa til 24. gr. stjórnarskrárinnar sem lýtur að því að forseti lýðveldisins geti rofið Alþingi og boðað tafarlaust til kosninga. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort þetta séu vangaveltur hans og hvort hann trúi því að forseti Íslands muni grípa til þessara úrræða þar sem forseti Íslands sér, eins og allir aðrir landsmenn, að hér starfar verklaus ríkisstjórn.

Í öðru lagi langar mig til gagnspyrja þingmanninn hvort hann sjálfur eða ríkisstjórnin í heild sinni hafi hugsað þá hugsun til enda að grípa sjálf til 3. mgr. 11. gr. stjórnarskrárinnar og lýsa yfir vantrausti á forsetann. Samkvæmt þeirri grein stjórnarskrárinnar þarf þrjá fjórðu hluta þingmanna til að lýsa yfir vantrausti á forsetann. Samþykki þingið það skal slíkt fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eru deilurnar á milli forsetans og (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar orðnar svo harðar að þessar tvær greinar stjórnarskrárinnar séu raunverulega til athugunar hjá báðum aðilum?