139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram að ræða frumvarp um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég verð að segja það í upphafi máls míns, eftir að hafa hlustað á orð hv. þm. Þórs Saaris um málþóf og annað, að gjarnan kemur einnig úr þeim ranni orðið hrossakaup. Ég hugsa að í þingliðinu séu fáir jafnróttækir hrossakaupmenn og fulltrúar og þingmenn Hreyfingarinnar, hvar sem þeir eru akkúrat núna. Ég minni á þegar samþykkt var að ganga til viðræðna um Evrópusambandið. Hvaða hross gengu þá kaupum og sölum? Ég velti því fyrir mér. Átti ekki að stofna hér einhverja lýðræðisstofu eða eitthvað slíkt? Ég held reyndar að svo hafi ekki verið staðið við það. Nú skilst mér að búið sé að koma á framfæri breytingartillögum sem búið er að skiptast á hrossum um, af hálfu þessa þingflokks.

Frú forseti. Ég ætla ekki að láta svona þvaður ergja mig í þessari ræðu. Ég ætla að fara enn og aftur yfir álitamál í frumvarpinu.

Það er enn þá langt í að hægt sé að segja að eitthvað hafi komið fram til að leysa málið eða gera það þannig úr garði að við getum klárað það. Það sem er kannski sorglegast við þetta allt saman er að mörg mál eru á dagskrá þingsins. Ég vil segja enn og aftur, frú forseti, að nær væri að taka þetta mál út af dagskrá þingsins svo við gætum afgreitt önnur mál sem eru miklu mikilvægari en þetta. Ríkisstjórninni, meiri hlutanum, er að sjálfsögðu í lófa lagið að koma með nýtt mál í byrjun október og reyna þá að afgreiða það á skikkanlegum tíma í stað þess að vera alltaf með umdeilt mál á síðustu metrum hvers þings. Í vor vorum við með þetta mál og sjávarútvegsmálin og fleiri mál sem ekki nokkur einasta leið var í raun að klára — á síðustu metrum þingsins. Og aftur lendum við í því í septemberstubbnum. Þessi vinnubrögð eru vitanlega fyrir neðan allar hellur.

Óhætt er að segja, þó að stjórnarmeirihlutinn vilji sjálfsagt seint viðurkenna það, að hér er auðvitað eingöngu verið að þóknast hæstv. forsætisráðherra með því að halda málinu inni og halda þar með þinginu og í raun þjóðinni um leið í gíslingu því að hér eru á dagskrá mál sem snerta t.d. Íbúðalánasjóð, að hann geti farið í óverðtryggð lán og þess háttar, sem við erum ekki enn farin að ræða að neinu viti, mál sem við munum væntanlega samþykkja á endanum en þurfa umræður. Hér eru líka sveitarstjórnarlög, svo fátt eitt sé nefnt, og upplýsingalög sem þurfa mikla umræðu. Við komumst hvorki lönd né strönd, frú forseti, meðan þetta er svona. Ég vil því skora á forseta að reyna að gera hæstv. forsætisráðherra grein fyrir því að þingið hefur annað að gera en eltast við duttlunga forsætisráðherra.

Ýmislegt hefur komið fram um þetta mál í umræðum og að sjálfsögðu sýnist sitt hverjum. Það hefur einna helst verið gagnrýnt í ræðum, bæði við 1. umr. og nú 2. umr., og auðvitað eru ýmsir hlutir í þessu frumvarpi gagnrýndir, að ekki sé farið að tillögum eða ábendingum sem komu fram hjá hinni svokölluðu þingmannanefnd sem Atli Gíslason stýrði. Þetta hafa hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson, Atli Gíslason og Unnur Brá Konráðsdóttir komið inn á í ræðum sínum. Ég verð að viðurkenna það og hef sagt það hér að mér finnst mjög sérkennilegt að tækifærið sé ekki notað til að auka formfestuna sem kallað er eftir og að draga úr oddvitaræðinu. Að mínu viti er verið að auka það með þessu frumvarpi.

Í ræðum þeirra fáu stjórnarliða sem hér hafa talað um málið er gjarnan vitnað til þess að þetta sé sótt í skýrslur þingmannanefndarinnar og rannsóknarnefndar Alþingis. Miðað við upplýsingarnar frá þessum hv. þingmönnum sem sátu í nefndinni er það einhver misskilningur. Það er hins vegar alveg ljóst að hluti af þessu er sóttur í skýrsluna Samræmd stjórnsýsla sem er fylgigagn frumvarpsins.

Þó svo að þetta sé gagnrýnivert og verði að breytast ef það á að vera hægt að samþykkja málið eru hér vitanlega fleiri greinar og þættir sem þarf að skoða. Það er reyndar ekkert mjög skemmtilegt að sjá þætti í frumvarpinu sem eru til bóta — það er mikilvægt að skýra suma hluti og setja á blað þó að þeir hafi kannski verið praktíseraðir einhvers staðar, t.d. hvernig fundargerðir eru skrifaðar og geymdar og hvaða reglur gilda um upplýsingar frá ríkisstjórnarfundum, siðareglur og ýmislegt annað sem má sannarlega tengja við skýrslur þingmannanefndarinnar og rannsóknarnefndarinnar — þegar maður sér líka þessa hluti sem styrkja ráðherraræðið, ef má orða það þannig, styrkja framkvæmdarvaldið. Það hugnast mér ekki, alls ekki.

Hér hefur 2. gr. verið til umfjöllunar og sagt hefur verið að hún sé ekki nógu afgerandi, að forsætisráðherra hafi í raun einn um fjölda ráðuneyta og heiti að segja og það þurfi ekki að koma til þingsins. Ég er sammála þeirri gagnrýni. Ég hef líka áhyggjur af 4. og 5. gr. frumvarpsins þar sem er rætt um hvernig stjórnarmálefni eru flutt á milli ráðuneyta. Eins og ég les þetta og skil, og hef borið saman við þau lög sem nú eru í gildi, er þetta veiking. Það er verið að einfalda þennan flutning. Praxísinn kann að vera réttlætanlegur, að þetta auki einhvern sveigjanleika, en þetta eykur um leið vald eins ráðherrans. Hér hafa verið tekin dæmi um málefni sem forsætisráðherra getur gripið inn í ef honum sýnist svo.

Sá forsætisráðherra sem nú situr mun einhvern tímann hverfa úr embætti og aðrir taka við. Ég vil taka fram að skoðanir mínar eiga ekkert síður við um framtíðina og framhaldið, að einhver sem er kannski ungur þingmaður í dag eigi eftir að sitja í forsætisráðherrastóli og hafa þessi völd og möguleikann á að gera þetta svona. Það hugnast mér alls ekki.

Það fyrirkomulag sem gildir í dag, miðað við það sem ég hef kynnt mér af sögunni, hefur í sjálfu sér ekki gefist neitt illa. Skapast hafa tilefni til umræðna í þinginu þar sem löggjafarvaldið getur rætt það frumvarp sem hefur komið frá ríkisstjórninni sem er mjög til bóta. Löggjafinn setur þá mark sitt á það og samþykkir hvernig framkvæmdarvaldið á að líta út miðað við það sem þar kemur fram. Þannig að ég hef áhyggjur af því að þetta eigi að falla út.

Ég ætla aðeins að fara yfir nokkrar greinar sem ég hef ekki fjallað mikið um áður. Aðeins var fjallað um 18. gr. í gær sem er um erindisbréf til aðstoðarmanna ráðherra. Ég hef mikinn skilning á hugsuninni í þessu, þ.e. að þessir aðilar eins og aðrir þurfi að hafa einhverjar leiðbeiningar um hvernig þeir eiga að starfa. Líkt og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sem fjallaði aðeins um þetta í gær hefur sá er hér stendur starfað sem aðstoðarmaður ráðherra. Það er ekkert einfalt að setja í embættisbréf í hverju það starf felst. Það er nánast allt milli himins og jarðar sem ráðherrum dettur í hug, það er nú bara þannig. Ég held að eftir upptalninguna um að sitja fundi, taka viðtöl, skrifa greinargerðir, lesa frumvörp o.s.frv., yrði að koma: allt annað sem ráðherra dettur í hug. Þannig hefur þetta verið praktíserað víða þótt það sé auðvitað misjafnt eftir ráðherrum. Þessu er einfalt að breyta og er ekki flókið eða stórmál, að mínu viti.

Þá er það 22. gr. um aðstoðarmennina. Það kemur reyndar fram, svo allrar sanngirni sé gætt, að hún taki ekki gildi fyrr en að loknum næstu kosningum vegna fjárhagsstöðu ríkisins í dag. Engu að síður er þarna um 100 millj. kr. kostnað að ræða samkvæmt kostnaðarmati, verði þetta að veruleika. Það held ég að verði … (Gripið fram í: Meiri hlutinn ætlar að gera það strax.) Meiri hlutinn ætlar að gera það strax, það er rétt, já. Það er í breytingartillögu að þetta taki gildi strax.

Ég hef ákveðinn skilning á að fjölga þurfi aðstoðarmönnum en þetta er ekki tíminn til þess. Ef einhvers staðar eru 100 milljónir afgangs til að fjölga starfsfólki eigum við þingmenn að segja: Fínt, við höfum fengið staðfest að við eigum 100 milljónir; notum þær til að styrkja löggjafann, styrkja Alþingi. Það er búið að vera að veikja Alþingi. Alþingi hefur þurft að skera hlutfallslega meira niður en framkvæmdarvaldið í undanförnum fjárlögum. Við þingmenn hljótum núna að segja stopp og segja við framkvæmdarvaldið: Hættið að ásælast fjármuni Alþingis til að styrkja framkvæmdarvaldið. Nú er það Alþingi sem skammtar peningana þannig að þetta er svolítið flókin staða. En þetta fúnkerar einfaldlega þannig að tillaga kemur frá framkvæmdarvaldinu um hvað Alþingi eigi að fá mikla peninga, svo hlaupa stjórnarþingmenn eftir því til að reyna að tryggja það, að „verði þinn vilji, hæstv. ráðherra“. Þannig gengur þetta fyrir sig. Það sem við þingmenn þurfum hins vegar að sameinast um er að láta þetta ekki henda, að það sé hægt að finna 100 milljónir í að finna aðstoðarmönnum ráðherra og styrkja framkvæmdarvaldið á meðan við getum ekki ráðið fleira starfsfólk til þingsins til að sinna t.d. verkefnum sem stjórnarandstaðan vill sinna á nefndasviði. Við erum með frábært fólk í Alþingi, en eins og var auglýst hjá einu sveitarfélagi: Við þurfum fleira frábært fólk. Það er einfaldlega þannig.

Við þurfum líka að minnast þess að alþingismenn tóku því þegjandi og hljóðalaust þegar ákveðið var að landsbyggðarþingmenn fengju ekki aðstoðarmenn vegna sparnaðar og vegna ástandsins. Það skýtur því skökku við að meiri hluti þingsins eða stjórnarflokkarnir skulu vera búnir að finna leiðir til að fjármagna aðstoðarmenn hjá ráðherrunum, fjölga þeim, á meðan ekki er hægt að finna fjármagn til þess að standa við loforð gagnvart þinginu og þingmönnum.

Þetta er kannski dæmi um það að ef vilji er fyrir hendi virðist vera hægt að finna peninga. Fyrir þessar 100 milljónir mætti fyrir löngu vera búið að leysa vanda Kvikmyndaskólans, svo eitthvað sé nefnt. 100 milljónir eru miklir peningar þegar horft er til niðurskurðar í heilbrigðisstofnunum og víðar. Það var m.a. þess vegna sem ég maldaði ekki í móinn þegar leggja átti hlutverk aðstoðarmanna þingmanna í landsbyggðarkjördæmunum til hliðar tímabundið. Það var vegna þess að stóra púllían er að sjálfsögðu þannig að tekið er úr henni allri.

Í frumvarpinu eru góðir kaflar, t.d. um siðferðileg viðmið — mér finnst gott að settar séu siðareglur og þær skerptar ef á þarf að halda — og fundargerðir og slíkt. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um sumar af breytingartillögunum sem hafa komið fram um að hljóðrita fundina. Ég held að þá muni ríkisstjórnarfundirnir breytast. Ég held að þá verði einfaldlega búið að fjalla um málin áður með öðrum hætti. Það er bara einn af breiskleikum mannsins og þessum störfum gegnir venjulegt fólk. Ég sé heldur ekki tilganginn í að taka þetta upp ef allt er fært til bókar eftir reglunum sem hér eru settar. Ég get ekki séð annað en að þær dugi.

Eins og ég sagði áðan tel ég að það þurfi að breyta 4. og 5. gr. Við 1. umr. voru hér ræður og andsvör eins og lög gera ráð fyrir og því var velt upp hvort núgildandi fyrirkomulag væri í einhverri andstöðu við stjórnarskrána. Var það hv. þm. Birgir Ármannsson er spurði hv. þm. Atla Gíslason, þá formann þingmannanefndarinnar svokölluðu, hvort svo væri. Hv. þm. Atli Gíslason svaraði því alveg skýrt af sínu viti, bæði sem formaður þingmannanefndarinnar og reynslumikill lögmaður, að svo væri ekki. Það þyrfti ekki að breyta fyrirkomulaginu, það stangaðist ekki á við stjórnarskrána. Það er einnig sagt í þeim umræðum að formfestan og foringjaræðið séu eins og hálfgerðir eineggja tvíburar. Ef ekki sé um formfestu í ráðuneytum að ræða hafi foringinn á hverjum tíma meiri völd til að sýsla með hlutina eftir eigin höfði. Áhyggjur þessara þingmanna sem komu þarna fram undirstrika það sem ég hef varað við í ræðum mínum.

Það er líka svolítið sérstakt, frú forseti, að á meðan þingmannanefndin var að störfum og var að skila tillögum til okkar um hvað þyrfti að bæta og breyta, var settur af stað starfshópur forsætisráðherra sem skilaði skýrslunni Samhent stjórnsýsla og kom það nefndarmönnum nokkuð á óvart, að minnsta kosti sumum í þingmannanefndinni, að það skyldi gert vegna þess að þeir töldu að þetta gæti skarast við þeirra hlutverk. Ég hef velt því svolítið fyrir mér hvers vegna í ósköpunum þessi leið var farin, að skipa þennan starfshóp á sama tíma, hvers vegna ekki var stuðst við það sem kæmi frá þingmannanefndinni þannig að hún fengi enn meira vægi. Þetta lítur svolítið þannig út að þingmannanefndinni hafi kannski ekki verið fyllilega treyst til að klára verkefni sitt um stjórnsýsluna, því hafi þetta verið gert.

Það var líka staðfest í ræðum, þar á meðal í ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, og hv. þm. Atli Gíslason vitnar í það í andsvari, að verið væri að opna heimild til að flytja stjórnarmálefni milli ráðuneyta viðkomandi ríkisstjórnar, þ.e. að létta það. Til þess hafi leikurinn einmitt verið gerður. Það er hins vegar spurning hvort ekki sé hægt að koma böndum á þetta og laga þetta svo að klára megi málið þannig að flestir geti sómasamlega farið frá því. Ég ítreka það, frú forseti, að það er alveg stórfurðulegt að vera með þetta mál á dagskrá þegar ekki er hægt að færa rök fyrir því að þetta sé brýnasta málið á dagskrá þingsins af þeim 35 málum eða hvað þau voru nú mörg þegar ég sá það síðast, það voru (Gripið fram í: 35) á dagskránni, já 35 mál. Þetta er svolítið sérstakt. En það á vitanlega að vera forseti Alþingis sem ákveður dagskrána.

Tími minn er senn á þrotum, frú forseti. Ég fór hér yfir 4. og 5. gr., aðeins yfir 2. gr., 18. gr. og 22. gr. Fleiri greinar á eftir að fjalla um. Ég reikna með að taka þátt í þeirri umræðu. Ég á einnig eftir í seinni ræðu að bera stuttlega saman lögin eins og þau eru í dag og þessar tillögur hér. Lög um Stjórnarráð Íslands eins og þau eru í dag hafa staðist ágætlega. Mér þykja þau vera betri fyrir Alþingi og styrkja og treysta löggjafann. Ég bið því hæstv. virðulegan forseta að setja mig aftur á mælendaskrá svo ég geti haldið áfram umfjöllun minni um málið.

Ég hvet líka þingmenn til að kynna sér kafla 2.4 í niðurstöðu þingmannanefndarinnar á bls. 11 þar sem fjallað er um stjórnsýsluna, oddvitaræðið og formfestuna. Það er mjög holl lesning fyrir þingmenn, áður en þeir ákveða hvernig þetta mál á að enda, og ég vonast til að einhverjir munu sjá það sama út úr henni (Forseti hringir.) og sá er hér stendur.