139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að velta þessu upp með „teamwork“, því að ekki er hægt að lesa neitt annað út úr þessu frumvarpi en að það fjalli ekki um það að vinna sem meiri liðsheild, heldur er verið að auka vægi eins liðsmanns sérstaklega mikið. Ég hef ekki hugleitt það sérstaklega, svo ég segi það bara, að koma með tillögu í þá veru. Ég held að það þýði ekkert að koma með tillögu um „teamwork“ fyrir þessa ríkisstjórn. Ástandið er bara þannig á því heimili.

Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin eins og hún stendur í dag stefnir í margar áttir. Hv. þingmaður nefndi Evrópusambandið sem er mjög freistandi að taka hér nokkra umræðu um. Ég las í dag, ég held það hafi verið í Dagblaðinu eða einhvers staðar, að utanríkisráðherra sé að tala um að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um endanlegan samning um Evrópusambandið. Jú, við erum öll sammála um að ef til þess kemur eigi þjóðin að gera það. En hverjir greiddu atkvæði gegn því að þjóðin fengi að greiða atkvæði um hvort við ættum að fara í þessar viðræður? Það var sami utanríkisráðherra, svo dæmi sé tekið, og fjölmargir aðrir þingmenn. Ríkisstjórnin veit ekki hvað hún sagði fyrir tveimur árum eða einu ári eða stjórnarþingmenn, eða hvað vinstri höndin ætlar að gera eða hægri höndin, en ef ástin á lýðræðinu er svona mikil hlýtur það sama að gilda þar.

Ég hef ekki spáð í „teamwork“ fyrir hönd ríkisstjórnarinnar en ég væri alveg til í það með hv. þingmanni að finna leiðir til að koma ríkisstjórninni í skilning um að það geti verið mjög gott að vinna eftir slíku skipulagi. Það eru aðrir hlutir í þessu frumvarpi sem ég hef haft meiri áhyggjur af en því hvernig samstarfið innan ríkisstjórnarinnar er. En þetta er athyglisvert.