139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hann út í reynslu hans sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands af því að hér er verið að færa ríkisstjórnina meira í áttina að fjölskipuðu stjórnvaldi. Það kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals í andsvari áðan að ekki væri nægileg hópvinna á vettvangi ríkisstjórnarinnar en hér er greinilega verið að færa málin nákvæmlega í þá átt.

Svo vil ég svara spurningu hv. þingmanns sem hann beindi til meirihlutamanna í allsherjarnefnd. Jú, það var skoðun meiri hlutans að gera þyrfti veigamiklar breytingar á frumvarpinu. Það er nefnilega ekki, eins og hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa haldið fram, eitthvert gæluverkefni forsætisráðherra. Þess vegna tók allsherjarnefnd það föstum tökum og gerði á því umtalsverðar breytingar sem hér eru lagðar fram í mjög ítarlegu máli. Það er nákvæmlega rétt sem hv. þingmaður rekur sig á, að það er búið að gera mjög miklar og margvíslegar breytingar á málinu í meðförum þingsins. Það er ekki gæluverkefni einnar manneskju. Það er ekki hugsað til þess að færa einhverjum einum forsætisráðherra alræðisvöld sem því miður hafa verið brögð að í íslenskum stjórnvöldum.