139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum ekkert að þræta um það að frumvarpið felur það í sér að verið er að færa völd til hæstv. forsætisráðherra. Það blasir við. Það er hinn bókstaflegi skilningur á frumvarpstextanum eins og hann liggur fyrir, bæði eins og hann lá fyrir þegar mælt var fyrir frumvarpinu en ekki síður núna eftir að búið er að fara um það höndum af hálfu hv. allsherjarnefndar eða meiri hluta hennar. Það er alveg óumdeilt. Völd sem áður voru hjá Alþingi verða þar ekki en verða hins vegar hjá hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni. Um þetta þurfum við ekki að þrátta, það stendur bara á blöðunum og við erum öll ágætlega læs.

Það má vel vera, hv. þingmaður, að verið sé að breyta eðli ríkisstjórnarinnar með einhverjum hætti og þetta verði fjölskipað stjórnvald, ég held hins vegar að vandinn hafi ekki snúist um það. Auðvitað hafa ráðherrar komið með meiri háttar mál alla jafna inn í ríkisstjórn, það er bara þannig, og það þekki ég sjálfur að maður … (Gripið fram í: Eins og hvalinn.) Hvalamálið var margoft rætt í ríkisstjórninni úr því að hv. frammíkallandi nefndi það. Það er nú þannig að ráðherra sem stendur frammi fyrir því að reyna að vinna einhver mál á bak við ríkisstjórnina, það er ekki mikil von til þess að slík mál nái fram að ganga því að yfirleitt kalla þau á ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar.

Það er alveg rétt að þetta mál hefur tekið allmiklum breytingum í meðferð þingsins. Þær breytingar hafa í sumum tilvikum verið til góðs en að öðru leyti ekki. Að mínu mati er það ekki endilega, eins og ég sagði áðan, til marks um að frumvörp séu illa undirbúin að þau taki breytingum, en þegar við sjáum að verið er að gera breytingar á frumvarpi með skírskotun til þess að það hafi ekki staðist stjórnarskrá, finnst mér það vera mikill áfellisdómur (Forseti hringir.) fyrir frumvarpið.