139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason spyr um er auðvitað lykilatriði þar sem við erum stödd í umræðunni. Ég er þeirrar skoðunar að heppilegast væri að málið yrði lagt til hliðar á þessu haustþingi, enda knýr ekkert á um afgreiðslu þess. Engin efnisleg rök hafa komið fram fyrir því að við þurfum að klára þetta á næstu dögum. Eins og hv. þingmaður bendir á eiga lög um Stjórnarráðið að standa til lengri tíma og menn eiga ekkert endilega að hringla með þau í hvert skipti sem kosið er eða skipt um ríkisstjórn. Lög um Stjórnarráðið eiga að vera nokkuð stöðug, að minnsta kosti í grundvallaratriðum. Því sé ég ekkert því til fyrirstöðu að hæstv. forseti þingsins setji málið til hliðar og áfram verði unnið, jafnvel á þeim grundvelli sem kemur frá hv. allsherjarnefnd nú á haustdögum, með breytingartillögur, áfram leitað leiða til að ná sátt, taka út mestu ágreiningsefnin eða leiða þau í jörð með einhverjum hætti.

Eins og menn hafa bent á í umræðunni er engin leið að átta sig á því hvaða hagsmunum er verið að stefna í hættu með því að geyma málið fram í október eða nóvember. Ekki neitt. Það er ekki nokkur skapaður hlutur í frumvarpinu sem ekki má bíða fram í október eða nóvember. Þá hefðum við meiri tíma til að vinna þetta, meiri tíma til að ná sátt og laga ýmis atriði og hugsa betur þau atriði sem kunna að vera óljós og ég hef m.a. bent á í máli mínu.