139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra um það sem fram fór á samningafundum í gær um lok þinghaldsins. Ég hefði nú satt að segja haldið að meiri bragur væri á því að þær umræður ættu sér stað utan þessa þingsalar (Gripið fram í.) en að ræða það undir þessum lið. Hæstv. forsætisráðherra kaus að koma hingað upp [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í.) og kasta hér fram og lýsa því yfir að stjórnarandstaðan sýndi sérstaka óbilgirni á þessum samningafundum. Það er hreinlega rangt. Það mun ekki skila neinni niðurstöðu fyrir okkur að munnhöggvast um þetta eins og hér hefur verið gert, þeim bolta var kastað af hálfu hæstv. forsætisráðherra.

Það liggur algjörlega fyrir að þær tilslakanir sem hafa verið boðnar í þessum tveimur málum eru með mjög svo ólíkum hætti. Það er alveg vitað að hæstv. forsætisráðherra vill helst ekki gera neinar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Meðan svo er verður ágreiningur um málið.