139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tel að nauðsynlegt sé að það komi fram við umræðuna að málið er ekki svo einfalt að tillaga sem komið hefur fram frá þessum tveimur hv. framsóknarþingmönnum, Siv Friðleifsdóttur og Eygló Harðardóttur ásamt tveimur öðrum meðflutningsmönnum, leysi það.

Ég fór yfir það í ræðu minni að málinu er stillt þannig upp að verið sé að bregðast við athugasemdum úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hæstv. forsætisráðherra fór líka yfir það í sinni stuttu yfirlýsingu áðan. Mitt mat er að það sé einmitt ekki verið að bregðast við meginathugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis heldur er hér eitthvað allt annað á ferðinni. Hvar koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis einhverjar tillögur í þá áttina sem 2. gr. í frumvarpinu leiðir til? Hvar er það? Hvar sér þess stað? Hvar er verið að svara þeirri helstu gagnrýni rannsóknarnefndar Alþingis að eftirlitsheimildir ráðherra hafi ekki verið nægilega sterkar? Hvar er því svarað í umræddu frumvarpi? Þessu þarf að svara. Um þetta þarf að ræða. Þess vegna (Forseti hringir.) er þetta mál ekki fullrætt, það þarf að taka það aftur inn í nefnd. Best væri að taka það af dagskrá, vinna það betur og ræða það á næsta þingi.